Spilavandi á Íslandi er mestur meðal ungra karlmanna og spila þeir mest á erlendum veðmálasíðum af þeim Íslendingum sem stunda peningaspil almennt.
Frá árinu 2005 hafa verið gerðar fimm faraldsfræðilegar rannsóknir á þátttöku fullorðinna Íslendinga í peningaspilum og á algengi spilavanda. Niðurstöður þeirra gera ráð fyrir að árið 2007 hafi 1,6% Íslendinga verið í verulegum vanda vegna þátttöku sinnar í peningaspilum eða átt við líklega spilafíkn að stríða. Hlutfallið var 2,5% 2011 og 2,3% bæði 2017 og 2023.
Karlar eru samkvæmt rannsókninni líklegri en konur til að þróa með sér slíkan vanda og vandi þeirra hefur einnig aukist hlutfallslega. Þannig stríddu 2,4% karla við verulegan spilavanda eða líklega spilafíkn 2007 en 4% þeirra 2023.
Yngsti aldurshópurinn er í mestum vandræðum og vandræði hans aukast einnig mest. 5,2% á aldrinum 18-25 ára stríddu við slíkan vanda 2017 en 6,9% 2023. Aldurshópurinn 26-40 ára stendur nokkuð í stað milli 2017 og 2023 en 2,8% í þeim hópi eiga við verulegan spilavanda að etja eða líklega spilafíkn.
Spilun á erlendum veðmálasíðum hefur aukist en árið 2017 voru 5,7% á slíkum síðum en hlutfallið var 6,6% árið 2023. Þar eru karlar í miklum meirihluta og notkun þeirra eykst. Af þeim körlum sem spila almennt spiluðu 9,9% á erlendum síðum árið 2017 en 12,4% 2023. Hlutfall kvenna sem spila á erlendum veðmálasíðum af þeim konum sem spila almennt er miklu lægra, eða 1,4% 2017 og 0,6% 2023.
Spilun á erlendum síðum er áberandi mest í yngsta aldurshópnum og hefur einnig aukist mest. 14,1% spilara í aldurshópnum 18-25 ára spiluðu á erlendum síðum 2017 en 20,1% árið 2023, eða rúmlega 40% fleiri. Til samanburðar höfðu rúm 9% spilara á aldrinum 26-40 ára spilað á erlendum síðum bæði árin.
Alma Hafsteinsdóttir, formaður Samtaka áhugafólks um spilafíkn, hefur áhyggjur af veðmálaauglýsingum á samfélagsmiðlum en ekki síður kynningarstarfsemi áhrifavalda fyrir veðmálafyrirtækin. „Vandinn er að það er ekki verið að kynna hina hliðina á málefninu. Það vantar algerlega inn í umræðuna hver vinningshlutföllin eru. Það er enginn áhrifavaldur að birta myndband þar sem hann er búinn að spila fyrir allt sparifé sitt eða laun sín. Áhrifavaldar eru ekki að hefja umræðu um að þeir eigi ekki fyrir mat eða geti ekki staðið við einhvers konar fjárhagslegar skuldbindingar,“ segir Alma.
Lesa má nánar um málið í Morgunblaðinu í dag