Þorsteinn M. Kristinsson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á Suðurlandi, segir ekki liggja fyrir hvað varð til þess að rúta frá ferðaþjónustufyrirtækinu Nicetravel fór út af veginum við Hala í Suðursveit í fyrrakvöld.
Vitað er að aðstæður voru varasamar og mikil hálka á veginum en óljóst er hvort vegurinn hafi verið sandaður eða ekki.
Rútan fór út af veginum og fór heila veltu eins og áður hefur komið fram en Þorsteinn segir slys á fólki hafa verið minni en óttast var.
„Þetta slapp alveg ótrúlega vel miðað við hvað gerðist, eiginlega bara með ólíkindum.“
Málið er áfram til rannsóknar hjá lögreglu.