Appelsínugular og gular viðvaranir

Veðurstofan hefur gefið út appelsínugular viðvaranir vegna veðurs á Breiðafirði, …
Veðurstofan hefur gefið út appelsínugular viðvaranir vegna veðurs á Breiðafirði, Vestfjörðum og á Ströndum og Norðurlandi vestra og gular viðvaranir á Austfjörðum og Suðausturlandi. Kort/Veðurstofa Íslands

Veðurstofan hefur gefið út appelsínugular viðvaranir vegna veðurs á Breiðafirði, Vestfjörðum og á Ströndum og Norðurlandi vestra og gular viðvaranir á Austfjörðum og Suðausturlandi.

Appelsínugulu viðvarirnar taka gildi klukkan 2 í nótt á Breiðafirði, klukkan 4 í nótt á Vestfjörðum og klukkan 8 í fyrramálið á Ströndum og Norðurlandi vestra. Spáð er sunnan hvassviðri eða roki með vindhviðum sem geta náð allt að 40 m/s. Þar verður ekkert ferðaveður og nauðsynlegt er fyrir fólk að tryggja lausamuni og fyrirbyggja foktjón.

Gular viðvaranir tóku gildi snemma í morgun á Austfjörðum og Suðausturlandi en þar er norðvestan stormur og varasamt ferðaveður.

Í hugleiðingum veðurfræðings segir að í dag verði norðvestlæg átt, víða gola eða kaldi en hvassviðri eða stormur á Austfjörðum. Það verða dálítil él fyrir norðan, en bjartviðri sunnan heiða.  Hæðarhryggur gengur austur yfir landið síðdegis og þá dregur víðast hvar úr vindi og léttir til. Frost verður víða 2 til 10 stig.

Líkur á asahláku

Á morgun er útlit fyrir stífa sunnanátt og það hlýnar ört í veðri. Meðalvindhraði verður víða á bilinu 15-25 m/s, hvassast norðvestantil, og snarpar vindhviður við fjöll. Talsverðri rigningu er spáð sunnan- og vestanlands seinnipartinn og líkur á asahláku á þeim slóðum.

Fólk er hvatt til að fylgjast með veðurspám og viðvörunum.

Veðurvefur mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert