Myrkrið var skollið á þegar blaðamaður lagði fyrir utan blokk eina í Vesturbænum, beint á móti KR-vellinum. Á þriðju hæð beið rithöfundurinn Guðrún Eva Mínervudóttir og bauð í bæinn. Hún hellir upp á jurtate og við komum okkur fyrir í sófanum. Stemningin er róleg, næstum dularfull, enda eru kertaljós eina birtan og komið svartasta skammdegi. Guðrún Eva hefur svo þýða rödd að allt stress dagsins hverfur eins og dögg fyrir sólu þegar hún byrjar að tala. Yfir heitu teinu spjöllum við um manneskjuna, skilnaði, fíknina, ástina og breyskleikann og förum vel á dýptina.
Í nýjustu bók sinni, Í skugga trjánna, berskjaldar Guðrún Eva sig sannarlega og þurfti kjark til. Bókina segir hún skáldævisögu, en hún er byggð á kafla úr lífi hennar þar sem tveir skilnaðir koma við sögu. En hún fjallar líka um margt margt fleira og húmorinn er aldrei langt undan.
Af hverju skrifaðir þú þessa bók?
„Vegna þess að hún knúði mjög dyra. Mig langaði ekki að skrifa hana og mig langaði heldur ekki að skrifa Skegg Raspútíns á sínum tíma,“ segir hún og hlær létt, en Skegg Raspútíns kom út árið 2016 og er skáldsaga með svipuðu sniði og Í skugga trjánna.
„Ég reyndi að koma mér hjá því en þetta var það sem vildi fram ganga. Ég gat þá eiginlega ekki skrifað neitt annað. Ég er vön að skrifa það sem er knýjandi og veit varla hvernig ætti að fara öðruvísi að.“
Ertu að gera upp fortíðina?
„Nei, þetta er nefnilega ekki uppgjör; það myndi líta allt öðruvísi út. Ég vildi fyrst og fremst draga fegurðina upp á yfirborðið eins og hægt er og búa til skáldskap úr því sem ég sá og upplifði í kringum mig,“ segir hún og setur sig ekki í dómarasæti í frásögn sinni af samferðafólki sínu í bókinni.
„Nei, ég hef ekkert sérstakt umboð til þess. Við eigum öll skilið milda meðferð og svo á ég engra harma að hefna,“ segir hún og brosir.
En hún viðurkennir að skrifin hafi tekið á sig tilfinningalega.
„Það var aðallega vegna þess að ég var taugaóstyrk. Það erfiðasta við að skrifa þessa bók voru sjálfsefasemdirnar, sem voru eiginlega bara alveg að fara með mig. En þá hafði ég í huga að það væri fullt af fólki í kringum mig með sterka siðferðiskennd, fólk sem ég treysti til að lesa yfir og hjálpa mér að hafa allt innan marka, auk þess sem ég trúi því að hvert og eitt okkar hafi rétt á því að segja sína sögu með sínum hætti. Það er alveg skýrt í mínum huga.“
Guðrún Eva er tvífráskilin og segir það vandræðalegt umræðuefni, en engu að síður skrifar hún um það í heilli bók.
„Það er ekkert þægilegt að viðurkenna að maður hafi tvisvar sinnum brotlent ástarfleyinu. Samfélagslega viðurkennda módelið er að fólk finni ástina og fylgist síðan að út lífið. Það er það sem við göngum út frá og væntingar okkar standa til og við teljum okkur öll þrá. En svo er það langoftast ekki þannig. Þetta er ótrúlega vandræðalegt umræðuefni og skömm sem fylgir því að hafa klúðrað ástinni á sama tíma og það er hlutskipti okkar flestra. Með þessari bók var ég að berskjalda mig mjög mikið og ég fann að ég þurfti að yfirstíga skömmina í sjálfri mér, en það er freistandi að breiða frekar yfir það sem ekki samræmist viðteknum gildum,“ segir hún og við ræðum að vissulega ætli sér enginn að skilja sem á annað borð giftir sig.
„Einmitt, og það að sambandi ljúki þýðir ekki að ástin hafi ekki verið sönn. Lífið sviptir okkur til eins og peðum á taflborði. Það er svo margt sem getur leitt til þess að ástin endist ekki ævilangt og mögulega var henni aldrei ætlað að gera það. Fólk lifir mörg líf í einu, nútíminn samþykkir þannig séð að við söðlum um í lífi og starfi. Það er ekki lengur ætlast til þess að fólk hangi saman í óhamingju,“ segir hún og bætir við:
„Hins vegar er þrástef þessarar bókar það að við erum alltaf öll að gera okkar besta. Ef við gætum gert betur myndum við gera það. Það er helsta niðurstaða bókarinnar, ef svo má segja.“
Ítarlegt viðtal er við Guðrúnu Evu í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina.