Hættan á meira smiti enn fyrir hendi

Skæð fuglainflúensa hefur greinst í fyrsta sinn hérlendis á alifuglabúi …
Skæð fuglainflúensa hefur greinst í fyrsta sinn hérlendis á alifuglabúi og þarf að vakta smit. mbl.is/Ómar

„Sem betur fer hafa ekki greinst smit í fleiri búum en hættan er engan veginn liðin hjá, því meðgöngutíminn getur verið allt að tvær vikur,“ segir Þóra Jóhanna Jónasdóttir, yfirdýralæknir hjá MAST, um stöðuna á fuglainflúensunni, eftir að smit kom upp í kalkúnabúinu í Auðsholti í Ölfusi síðastliðinn þriðjudag.

Hún segir aðgerðir hafa gengið vel en hætta á smitdreifingu sé enn mikil. Fuglaeigendur og almenningur eru beðnir að vera vel vakandi fyrir sjúkdómseinkennum í fuglum eða óeðlilegum dauða. „Við höldum áfram að vakta og fögnum hverjum degi sem líður án þess að smit komi upp. Fram hefur farið tæming og sótthreinsun á húsinu.“

Gæti haft áhrif á framboð

Þóra segir að allur úrgangur, fuglar, undirburður og annað sem geti tekið í sig smitefni sé á leið í förgun.

„Við teljum mestar líkur á að smitið hafi borist með villtum fugli og það er ekkert sem bendir til þess að þetta hafi borist með fóðri.“

Á Auðsholti eru þrjú fuglahús og komu veikindin upp í einu þeirra. Í því voru 1.300 fuglar og hafa þeir allir verið aflífaðir. Fjórir af þeim voru krufnir og voru þeir allir smitaðir.

„Það er aðeins fjarlægð í hin húsin og við tókum ákvörðun um að aflífa einungis fugla í húsinu sem veikindin komu upp í, en hin húsin eru undir ítarlegri vöktun.“

Í október greindust í fyrsta skipti á þessu ári skæðar fuglainflúensuveirur í villtum fuglum. Síðan þá hefur óvissustig verið í gildi. Nú hefur það verið hækkað í neyðarstig. Upplýsingar um þessi mismunandi stig er að finna á upplýsingasíðu Matvælastofnunar um fuglainflúensu.

Lesa má nánar um málið í Morgunblaðinu í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert