Kvikan flæðir beint upp í gíg

„Spurningin er hvort við höldum sama mynstrinu og endurteknu efni, …
„Spurningin er hvort við höldum sama mynstrinu og endurteknu efni, að það safnist í hólfið, þetta gos hætti og við fáum annað gos eftir þrjá mánuði,“ segir Þorvaldur. mbl.is/Árni Sæberg

„Ef við skoðum þetta í sam­hengi er meiri kvika kom­in upp á yf­ir­borðið en safnaðist fyr­ir í kviku­hólf­inu fyr­ir gosið þannig að það er aug­ljóst að kvika er að flæða beint upp í gegn, alla leið upp í gíg,“ seg­ir Þor­vald­ur Þórðar­son, pró­fess­or í eld­fjalla­fræði við Há­skóla Íslands, í sam­tali við mbl.is um ris lands í Svartsengi sem GPS-mæl­ing­ar og gervi­tung­la­gögn hafa staðfest.

Seg­ir pró­fess­or­inn hluta kvik­unn­ar flæða inn í grynnri kviku­geymslu sem sé or­sök landriss­ins nú. „Aðdrag­and­inn að landris­inu núna er hæg­ari og það hef­ur tekið lengri tíma, land­sigið varði leng­ur,“ seg­ir hann og nefn­ir enn frem­ur skjálfta á átta til tíu kíló­metra dýpi sem bendi til þess að ein­hverj­ar breyt­ing­ar séu í gangi.

Sama mynstur og end­ur­tekið efni?

„Spurn­ing­in er hvort við höld­um sama mynstr­inu og end­ur­teknu efni, að það safn­ist í hólfið, þetta gos hætti og við fáum annað gos eft­ir þrjá mánuði. Mér finnst samt ekki loku fyr­ir það skotið að þetta nái að halda dampi, flæðið úr dýpra hólf­inu haldi sér og gosið haldi áfram á ró­leg­um nót­um,“ held­ur hann áfram.

Hverju spá­irðu þá um árið 2025?

„Nú er farið að lengj­ast á milli gosa svo spurn­ing­in er hvort flæðið úr dýpra geymslu­hólf­inu í það grynnra sé smátt og smátt að minnka, ákveðin vís­bend­ing hef­ur verið í þá átt,“ svar­ar hann og bend­ir á að hinn mögu­leik­inn sé einnig fyr­ir hendi að ein­hvers kon­ar jafn­vægi hafi náðst og stöðugt flæði sé úr neðra geymslu­hólf­inu í það efra.

„Ef sú er staðan held­ur þetta bara áfram eins lengi og það helst við,“ seg­ir pró­fess­or Þor­vald­ur Þórðar­son að lok­um um gang mála á Reykja­nesskaga.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert
Loka