Kvikan flæðir beint upp í gíg

„Spurningin er hvort við höldum sama mynstrinu og endurteknu efni, …
„Spurningin er hvort við höldum sama mynstrinu og endurteknu efni, að það safnist í hólfið, þetta gos hætti og við fáum annað gos eftir þrjá mánuði,“ segir Þorvaldur. mbl.is/Árni Sæberg

„Ef við skoðum þetta í samhengi er meiri kvika komin upp á yfirborðið en safnaðist fyrir í kvikuhólfinu fyrir gosið þannig að það er augljóst að kvika er að flæða beint upp í gegn, alla leið upp í gíg,“ segir Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði við Háskóla Íslands, í samtali við mbl.is um ris lands í Svartsengi sem GPS-mælingar og gervitunglagögn hafa staðfest.

Segir prófessorinn hluta kvikunnar flæða inn í grynnri kvikugeymslu sem sé orsök landrissins nú. „Aðdragandinn að landrisinu núna er hægari og það hefur tekið lengri tíma, landsigið varði lengur,“ segir hann og nefnir enn fremur skjálfta á átta til tíu kílómetra dýpi sem bendi til þess að einhverjar breytingar séu í gangi.

Sama mynstur og endurtekið efni?

„Spurningin er hvort við höldum sama mynstrinu og endurteknu efni, að það safnist í hólfið, þetta gos hætti og við fáum annað gos eftir þrjá mánuði. Mér finnst samt ekki loku fyrir það skotið að þetta nái að halda dampi, flæðið úr dýpra hólfinu haldi sér og gosið haldi áfram á rólegum nótum,“ heldur hann áfram.

Hverju spáirðu þá um árið 2025?

„Nú er farið að lengjast á milli gosa svo spurningin er hvort flæðið úr dýpra geymsluhólfinu í það grynnra sé smátt og smátt að minnka, ákveðin vísbending hefur verið í þá átt,“ svarar hann og bendir á að hinn möguleikinn sé einnig fyrir hendi að einhvers konar jafnvægi hafi náðst og stöðugt flæði sé úr neðra geymsluhólfinu í það efra.

„Ef sú er staðan heldur þetta bara áfram eins lengi og það helst við,“ segir prófessor Þorvaldur Þórðarson að lokum um gang mála á Reykjanesskaga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert