Einn heppinn miðaeigandi mun vinna 70 milljónir króna þegar dregið verður í Happdrætti Háskóla Íslands á þriðjudaginn. Milljónaveltan hefur ekki gengið út síðan í maí og er potturinn því sjöfaldur.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Happdrætti Háskóla Íslands.
Þá segir jafnframt að samkvæmt reglum Happdrættisins verður milljónaveltan að ganga út í lokaútdrætti ársins sem þýðir að einn heppinn miðaeigandi mun hreppa stóra vinninginn.
Heppni miðaeigandinn sem dreginn var út í milljónaveltunni í maí hélt að um símahrekk væri að ræða þegar hann fékk símtalið frá Happdrætti Háskólans um að hann hefði unnið 50 milljónir króna, segir í tilkynningunni.
„Barnabarnið mitt var búið að vera að gera símaat í mér dagana á undan og ég hélt að það væri enn og aftur að hringja þegar símtalið frá Happdrættinu kom. Það tók smá tíma fyrir starfsmann Happdrættisins að telja mér trú um að þetta væri ekki hrekkur,” er haft eftir vinningshafanum, sem búsettur er í Grafarvogi, í tilkynningunni.
Vinningsmiðinn er búinn að vera í eigu fjölskyldunnar í áratugi en það var langafi hrekkjótta barnabarnsins sem keypti hann upphaflega.