Á Laugavegi, rétt fyrir ofan Hlemm, má finna lítið krúttlegt hótel sem ber nafnið Fönix. Þar er blaðamaður mættur til fundar við rithöfundinn Steindór Ívarsson sem býður honum inn í hlýjuna, en hótelið rekur eiginmaður hans Jón Sigurðsson. Við setjumst inn í notalega borðstofu og ræðum um ritstörfin, bækurnar hans Steindórs og hvernig ástríðan fyrir sköpuninni tók smátt og smátt yfir.
Fjórar ljóðabækur, smásögubók, barnabók og fimm skáldsögur hafa komið út eftir Steindór. Nýjasta bók hans er glæpasagan Völundur en frumraun hans í glæpasögum var bókin Blóðmeri sem kom út í fyrra og vakti athygli. Steindór segist hafa verið bókhneigður sem barn og fór snemma að spreyta sig á ljóðum.
„Ég get ekki hugsað mér lífið án bóka. Ég er alinn upp undir Eyjafjöllum, þótt ég hafi fæðst í Reykjavík, en foreldrar mínir skildu þegar ég var ungur og mamma gerðist þá ráðskona á bóndabæ. Þar bjuggum við í tíu ár en fluttum svo til Reykjavíkur,“ segir Steindór.
Eftir menntaskóla fór Steindór sem skiptinemi til Þýskalands, nokkuð sem átti eftir að hafa mikil áhrif á líf hans.
„Ég fór til Heidelberg og vann þar í sjálfboðavinnu á elliheimili sem hafði gríðarleg áhrif á mig sem ungan mann. Mér fannst svo gaman að spjalla við fólkið og fann mikla væntumþykju frá því. Ég fékk aðra sýn á lífið og skrifa mikið um eldra fólk,“ segir Steindór sem vann svo hjá Skýrr og Advania í 28 ár áður en hann sneri sér að ritstörfum.
„Fyrsta ljóðabók mín heitir Búrið og fjallar bókstaflega um það að vera inni í skápnum og að koma út. Ég gaf út ljóðabókina árið 1998 og kom út úr skápnum á sama tíma,“ segir hann, en Steindór var þá 35 ára.
„Mörgum kom þetta ekki á óvart,“ segir hann og hlær.
Eftir ljóðabækurnar og barnabókina ákvað Steindór að spreyta sig á að skrifa leikrit. Hugmyndin var komin en formið reyndist honum erfitt.
„Mér fannst ég vera fastur og ákvað í staðinn að prófa að skrifa skáldsögu. Og þá bara opnuðust flóðgáttir,“ segir Steindór sem notar gjarnan atburði og reynslu úr eigin lífi í sögur sínar.
„Ljóðin byggðust mikið á mínu eigin lífi en fyrsta skáldsagan, Þegar fennir í sporin, byggist að hluta til á reynslu minni í Þýskalandi og ýmislegt í bókinni er sannleikur. Ég gaf svo út Sálarhlekki, sem er ekki byggt á eigin lífi en gerist á elliheimili, en einnig á sveitabæ,“ segir hann, en önnur bókin í þeirri seríu heitir Sálarangist. Glæpasagnaformið togaði svo í Steindór, en hann segist hafa legið í Agötu Christie-bókum sem ungur maður.
„Þegar ég skrifaði glæpasögurnar langaði mig að hafa skilaboð í þeim, einhverja dýpri meiningu. Fyrir nokkrum árum las ég grein um blóðmerahald, áður en það komst í hámæli, og datt þá í hug að skrifa bók sem kemur inn á blóðmerahald, en líka um alvarlegar afleiðingar af kynbundnu ofbeldi og heimilisofbeldi. Þannig varð glæpasagan Blóðmeri til. Í Völundi er undirtónninn hins vegar ofbeldi og fordómar sem hinsegin fólk hefur orðið fyrir í gegnum tíðina.“
Ertu í dag rithöfundur í fullu starfi?
„Það má eiginlega segja það,“ segir Steindór og viðurkennir að hann sé ekki á rífandi launum en hann nýtur vinnunnar í botn. Steindór segist afar ánægður með að bækur hans fái hlustun, lestur og tilnefningar til verðlauna, en Völundur er nú tilnefnd til Blóðdropans. Í fyrra var Blóðmeri tilnefnd til sömu verðlauna. Í ár var hún einnig tilnefnd til íslensku hljóðbókaverðlaunanna, ásamt Sálarhlekkjum. Þegar fennir í sporin var þá tilnefnd til þeirra verðlauna á sínum tíma. Þannig hafa fjórar bóka hans fengið tilnefningar.
Við ræðum nýjustu bókina, Völund, en í henni fléttast saman þrjár sögur sem tengjast allar í lokin.
„Ungur samkynhneigður maður finnst látinn í íbúð á Klapparstíg og tvær lögreglukonur koma að rannsókninni, þær sömu og í glæpasögunni Blóðmeri. Þetta hugsanlega sjálfsvíg er málum blandið,“ segir Steindór og vill ekki gefa of mikið upp.
„Í bókinni er einnig sögð ástarsaga tveggja karlmanna árið 1957 en annar þeirra drukknar í Reykjavíkurhöfn. Það er komið inn á alls konar vinkla varðandi fordóma gagnvart samkynhneigðum,“ segir hann.
„Það er nóg að gera. Ég hugsa um bækur mínar allan sólarhringinn og það er ekki kvöð, heldur ástríða. Ég hef fundið mína hillu í lífinu. Það er aldrei of seint; kannski þurfti ég bara að safna í reynslubankann áður en ég byrjaði.“
Ítarlegt viðtal er við Steindór í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina.