Þorsteinn M. Kristinsson, aðalvarðstjóri lögreglunnar á Suðurlandi, segir alvarleika bílveltunnar sem varð í morgun við Fagurhólsmýri á Suðurlandi þess eðlis að þyrlan hafi verið kölluð út. Snemma í morgun hafi bifreið einnig farið út af veginum í Þrengslunum.
Þetta segir Þorsteinn í samtali við mbl.is.
Aðspurður segist Þorsteinn ekki geta sagt til um ástand þeirra sem slösuðust í bílveltunni.
Tveir voru fluttir með þyrlu Landhelgisgæslunnar á Landspítalann um þrjúleytið. Slysið varð í morgun upp úr tíu.
Spurður hvort lögreglunni hafi borist fleiri tilkynningar um slys segir Þorsteinn að ökumaður bifreiðar hafi ekið út af veginum í Þrengslunum eldsnemma í morgun. Hann segir slysið ekki hafa verið alvarlegt.
Jafnframt nefnir Þorsteinn umferðarslys tveggja bifreiða sem varð austan Seljalandsfoss á Suðurlandsvegi í gær.
Þorsteinn brýnir fyrir mönnum að vera á varðbergi vegna hálku á vegum.