Miklar leysingar hafa átt sér stað á sunnan- og vestanverðu landinu síðasta sólarhring, samfara mikilli úrkomu, hlýindum og hvassviðri.
Vatnavextir hafa verið í ám og lækjum á þessum svæðum, en eftir miðnætti dró verulega úr úrkomu vestan til á landinu og dregur því hratt úr hættunni þar, að því er segir í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands.
Gert er ráð fyrir áframhaldandi úrkomu á sunnanverðu landinu fram eftir degi, sérstaklega í grennd við Eyjafjalla-, Mýrdals- og Öræfajökul. Á meðan það rignir áfram á sunnanverðu landinu er hætta á skriðuföllum, þó að dregið hafi úr krapaflóðahættunni.
Veðurspáin gerir ráð fyrir að það stytti upp seinnipartinn í dag og að kólni, sem ætti að draga úr hættunni á skriðuföllum.
Gera má ráð fyrir svölu veðri á þriðjudaginn en á miðvikudagsmorgun kemur önnur lægð upp að sunnanverðu landinu. Úrkomumagnið í þeirri lægð er ekki á pari við veðrið sem nú er að ganga yfir.
Nokkrar tilkynningar um ofanflóð hafa borist ofanflóðavakt Veðurstofunnar síðastliðinn sólarhring og allar hafa þær verið undir bröttum hlíðum.
Tvær skriðutilkynningar bárust Veðurstofunni í gær og í morgun.
„Sú fyrri var efnislítil skriða sem féll á Eyrarhlíð á milli Ísafjarðar og Hnífsdals og lokaði veginum í skamma stund. Sú seinni var skriða sem féll við Gemlufallsheiði og lokaði veginum á milli Önundarfjarðar og Dýrafjarðar í stutta stund síðastliðna nótt,“ segir í tilkynningunni.
„Nokkrar tilkynningar um grjóthrun hafa borist skriðuvaktinni sem hafa náð niður á vegi: Súðavíkurhlíð, Kirkjubólshlíð, Skápadalshlíð á norðan- og sunnanverðum Vestfjörðum og á veginn undir Steinafjalli á Suðurlandi.
Aðvaranir vegna grjóthruns og vatnavaxta eru á nokkrum vegum á sunnan- og vestanverðu landinu, sjá vef Vegagerðarinnar.“