Embætti héraðssaksóknara hefur gefið út ákæru vegna manndráps á hendur manninum sem er grunaður um að hafa banað dóttur sinni, hinni tíu ára Kolfinnu Eldeyju Sigurðardóttur, við Krýsuvíkurveg í september.
„Honum er gefið að sök að hafa banað dóttur sinni,“ segir Karl Ingi Vilbergsson, saksóknari hjá embætti héraðssaksóknara, aðspurður.
Gæsluvarðhald yfir manninum hefur sömuleiðis verið framlengt.
Í dag eru 12 vikur síðan hann var hnepptur í gæsluvarðhald. Samkvæmt lögum um meðferð sakamála er aðeins heimilt að vista grunaða í gæsluvarðhald í 12 vikur án þess að ákæra sé gefin út gegn þeim.
Málið þekkja lesendur líklega vel en þjóðin var slegin óhug þegar lögreglunni var tilkynnt um lík 10 ára gamallar stúlku skammt frá Krýsuvíkurvegi.
Lögreglan greindi frá því síðar að faðir stúlkunnar væri grunaður um að hafa banað henni en hann hafði haft samband við lögregluna og vísað á líkið.