Geta ekki hringt í aðra viðskiptavini Símans

Bilunin kom upp klukkan 14.20.
Bilunin kom upp klukkan 14.20. Ljósmynd/Colourbox

Bilun í miðlægu kerfi Símans, farsímakjarna, veldur því að viðskiptavinir Símans eiga í erfiðleikum með að hringja í aðra viðskiptavini Símans.

Þetta staðfestir Guðmundur Jóhannsson, samskiptastjóri Símans.

Bilunin kom upp klukkan 14.20 og að sögn Guðmundar er enn verið að greina vandamálið. 

Hann kveðst ekki geta sagt til um hvenær viðgerðum ljúki.

Ætti ekki að hafa áhrif á neyðarfjarskiptakerfi

Aðspurður segir hann truflanirnar aðallega felast í því að viðskiptavinir fyrirtækisins eigi erfitt með að hringja og taka við símtölum frá öðrum viðskiptavinum fyrirtækisins. Það sé þó ekki ómögulegt. Sum símtöl fari í gegn, önnur ekki.

Aftur á móti geti viðskiptavinir Símans tekið við símtölum frá öðrum símfyrirtækjum.

Spurður hvort bilunin komi til með að hafa áhrif á Neyðarlínuna segir hann svo ekki vera.

Neyðarfjarskiptakerfi landsins sé tetra-kerfi og því ætti bilun í farsímakjarna Símans ekki að hafa áhrif á það.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert