Íslensku jólasveinarnir eru greinilega eftirsóknarverður félagsskapur en mörg hundruð manns komu til að umgangast þá í Mývatnssveitinni um helgina.
Jólasveinarnir fara í sitt árlega jólabað í Jarðböðunum við Mývatn og létu verða af því á laugardaginn. Anton Birgisson, blaðafulltrúi íslensku jólasveinanna, segir bræðurna misjafnlega hrifna af því að baða sig. „Ketkróki og Gluggagægi þykir til dæmis ægilega gott að fara í jólabaðið en yfirleitt þarf að binda Þvörusleiki til að fara í baðið,“ segir Anton en yfir fjögur hundruð manns voru viðstaddir þegar sveinarnir fóru í jólabað í þetta skiptið.
Nóg var um að vera á svæðinu um helgina en í gær tóku fjórir bræðranna á móti gestum í Dimmuborgum og þá voru meðfylgjandi myndir teknar. Jólasveinarnir eru í Dimmuborgum frá 11-13 um helgar í desember og hafa verið í 20 ár að sögn Antons.
Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag.