Rafmagnslaust hefur verið í Vík og annars staðar í Mýrdal eftir að bilun kom upp í jarðstreng RARIK frá Holti til Víkur og sér svæðinu fyrir rafmagni. Eftir því sem RARIK greinir frá á Facebook-síðu sinni hefur gengið illa að keyra upp það varaafl sem fyrir hendi er í Vík og því verið að flytja færanlegt varaafl á staðinn.
Segir RARIK á Facebook að rafmagnsleysið gæti varað vel fram eftir degi bæði á hluta Víkur og í Mýrdalnum. „Rafmagnstruflanir gætu orðið hjá þeim sem eru með rafmagn og mælum við með að slökkt sé á raftækjum og þau tekin úr sambandi,“ segir þar.
„Bilanaleit stendur yfir en það mun ráðast af staðsetningu bilunar hversu langan tíma mun taka að gera við hana. Við biðjumst velvirðingar á þessum óþægindum og biðlum til viðskiptavina okkar að fara sparlega með rafmagn meðan þetta ástand varir,“ segir að lokum í tilkynningunni.
„Hálfur bærinn er rafmagnslaus og við erum á fullu í bilanaleit,“ segir Rósant Guðmundsson samskiptastjóri RARIK í samtali við mbl.is og kveður mikla vatnavexti á svæðinu torvelda þá vinnu. „Það hefur áhrif á dreifikerfið sem er í jörð. Við erum búin að virkja neyðarstjórn þótt við séum ekki enn á neyðarstigi, það er bara til að flýta fyrir öllum ákvörðunum,“ segir Rósant enn fremur.
Segir hann nú beðið eftir tveimur vararafstöðvum sem væntanlega komi nú um hádegisbil og ein til sé væntanleg síðar í dag.
„En við hvetjum alla til að nota rafmagnið sparlega því þetta verður tæpt. Við erum komin í umfangsmiklar aðgerðir,“ segir Rósant Guðmundsson samskiptastjóri RARIK að lokum.