Niðurstaðan lýðræðisleg og trúverðug

Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Ölfusi.
Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Ölfusi. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins í Ölfusi þakka íbúum fyrir þátttökuna í íbúakosningunni um hvort heimila ætti starfsemi mölunarverksmiðju rétt utan við Þorlákshöfn og segja umræðuna hafa verið mikilvægan lið í lýðræðislegri ákvarðanatöku sveitarfélagsins.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá bæjarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins í Ölfusi, en hana sendi Elliði Vignisson, bæjarstjóri Ölfuss.

Niðurstaðan skýr

„Niðurstaða kosninganna er skýr. Rétt um 30% greiddi því atkvæði að heimilað yrði að reisa mölunarverksmiðju en um 70% lagðist gegn því. Vilji íbúa var því að heimila ekki slíka framkvæmd. Sá vilji er núna vilji okkar og af heilum hug munum við vinna í samræmi við þá afstöðu,“ segir í tilkynningunni.

Segir þar enn fremur að samhliða ákvörðun um að fela íbúum beint og milliliðalaust vald í málinu hafi bæjarfulltrúarnir tekið ákvörðun um að halda þeirra persónulegu skoðunum út af fyrir sig.

Það hafi verið gert af virðingu fyrir milliliðalausu lýðræði.

Sterk þátttaka tryggði lýðræðislega niðurstöðu

„Við erum stolt af því að hafa þannig boðið upp á vettvang þar sem íbúar höfðu tækifæri til að hafa bein áhrif á ákvarðanir sem varða okkar sameiginlega umhverfi og samfélag. Með því að taka þátt sýnduð þið að raddir ykkar skipta máli og mótuðuð beint og milliliðalaust stefnu sveitarfélagsins.“

Þá ríkir mikil ánægja á meðal bæjarfulltrúanna með hversu góð kjörsókn var í kosningunni en alls greiddu rúmlega 65% íbúa atkvæði sem bæjarfulltrúarnir segja afar góða þátttöku og sé langt umfram það sem oft er í kosningum sem þessum.

„Niðurstaðan endurspeglar skýrt áhuga og ábyrgð íbúa Ölfuss á framtíð byggðarlagsins. Sterk þátttaka tryggði að niðurstaða kosninganna yrði bæði lýðræðisleg og trúverðug.“

Dapurlegt að sjá persónulega aðför að fólki

Segir í tilkynningunni að ástæða sé til að fagna hófstilltri og málefnalegri framkomu almennra íbúa við undirbúning kosninganna. Þeir hafi sýnt ábyrgð og borið virðingu fyrir því að skoðanir kynnu að vera ólíkar.

„Því miður féllu þó vanstillt orð sem hafa valdið okkur áhyggjum. Verst var að sjá tilraunir til að draga málin í pólitíska deilu sem voru að okkar mati ekki til þess fallin að gæta hagsmuna samfélagsins. Sérstaklega var dapurlegt að sjá persónulega aðför að fólki sem ekkert hefur sér til saka unnið annað en að vilja sínu samfélagi vel og sýna sínu meðferðarfólki hlýhug. Þar bera örfáir einstaklingar ábyrgð og ósanngjarnt að láta slíkt spilla umræðu og úrvinnslu núna að afloknum vel heppnuðum íbúakosningum.

Við þökkum ykkur aftur fyrir þátttökuna og ykkar framlag til lýðræðislegs samtals í okkar góða sveitarfélagi.“

Hrósar Heidelberg fyrir sína framgöngu

Í samtali við mbl.is hrósar Elliði Vignisson, bæjarstjóri Ölfuss, Heidelberg fyrir framgöngu sína í málinu.

„Þau komu fram af miklum myndugleika að mínu mati og báru fulla virðingu fyrir þessari ákvörðun sveitarfélagsins að fara þessa leið og ég hef fulla trú á að þeir finni mölunarverksmiðjunni einhvers staðar annars staðar farveg.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert