Hæstiréttur hefur fellt úr gildi ákvörðun Persónuverndar sem laut að lokun reikninga skólabarna í Reykjavík í Seesaw-nemendakerfinu. Persónuvernd sektaði Reykjavíkurborg um fimm milljónir vegna notkunar á Seesaw en núna þarf ríkið að endurgreiða borginni þá sekt.
Þetta kemur fram í dómi Hæstaréttar.
Í desember 2021 var Reykjavíkurborg gert að að loka reikningum skólabarna í Seesaw og sjá til þess að öllum upplýsingum yrði komið til forráðamanna, geymt í skólunum og síðan eytt úr kerfinu.
Samkvæmt persónuvernd uppfyllti Seesaw-kerfið ekki þær kröfur sem gerðar eru um meðferð persónugreinanlegra upplýsinga, og litið er til þess að gera megi ráð fyrir að viðkvæmar upplýsingar séu skráðar í kerfið.
Í maí 2022 lagði Persónuvernd svo fimm milljóna króna sekt á borgina.
Borgin höfðaði mál til ógildingar ákvarðana Persónuverndar og endurgreiðslu sektarinnar. Hæstiréttur taldi ekki efni til að ógilda ákvörðun Persónuverndar frá 2021 í heild sinni þrátt fyrir að borginni hefði ekki verið veittur formlegur andmælaréttur, sem þó hefði talist eðlileg stjórnsýsla.
Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að Persónuvernd hefði ekki lagt viðhlítandi grunn að efnislegri niðurstöðu sinni hvað varðaði tegund persónuupplýsinga auk þess sem efnislegir annmarkar voru á mati Persónuverndar á heimild borgarinnar til vinnslu persónuupplýsinga.
„Að virtum þeim atvikum sem lágu fyrir og stöðu málsins við ákvörðunina 16. desember 2021 var það mat réttarins að sá þáttur hennar sem laut að lokun reikninga skólabarna og eyðingu persónuupplýsinga hefði verið úr hófi og var ákvörðunin 16. desember 2021 því felld úr gildi að hluta,“ segir í reifun dómsins.
Þá taldi Hæstiréttur enn fremur að Persónuvernd hefði ekki getað sektað borgina vegna efnislegra annmarka og ágalla á stjórnsýslulegri meðferð Persónuverndar.
Þrátt fyrir þetta var tekið fram í dómnum að borgin hefði framið óumdeild brot. Ekki var uppfyllt meginreglu Persónuverndar um sanngirni og gagnsæi vinnslu.
Einnig gætti borgin ekki að því að persónuupplýsingar skyldi ekki varðveita lengur en nauðsynlegt væri miðað við tilgang vinnslu eða ákvæði laganna um innbyggða og sjálfgefna persónuvernd, ásamt öðrum brotum.