Rúmlega þúsund manns hafa skrifað undir undirskriftarlista þar sem skorað er á borgaryfirvöld að staðfesta fyrri ákvörðun um að byggt verði við Langholtsskóla, Laugalækjarskóla og Laugarnesskóla, í stað þess að byggja nýjan safnskóla í Laugardal fyrir 8. - 10. bekk.
Foreldrafélög skólanna þriggja stóðu að undirskriftarlistanum.
Þar segir að borgaryfirvöld ætli sér að sniðganga allt samráð, umbreyta skólagerðum þriggja skóla og brjóta upp skólahverfi og sterka félagslega heild Laugarneshverfisins.
Í október 2022 var samþykkt tillaga í skóla- og frístundaráði um að byggja við skóla þrjá vegna mikillar fjölgunar nemenda og plássleysis. Í vor var hins vegar lagt til að byggður nýr unglingaskóli fyrir elstu árganga. Talað var um að forsendur væru breyttar og að flóknar viðhaldsframkvæmdir samhliða viðbyggingu myndu raska skólastafi meira og í lengri tíma en áður var gert ráð fyrir.
„Við teljum fórnarkostnaðinn vegna áætlana borgarinnar mun meiri en mögulegan ávinning af uppbrotinu. Við krefjumst þess að þeim verðmætum sem felast í farsælli menningu skólanna okkar og mannauði þeirra, verði mætt af virðingu og íbúalýðræði verði virt við ákvörðun um framtíðaruppbyggingu skólanna í Laugardal,“ segir meðal annars í textanum með undirskriftarlistanum.
Er þess krafist að framtíðaruppbygging verði á grundvelli skólanna og hverfanna og að nú þegar verði hafist handa við endurbætur og stækkun skólahúsnæðisins.