Sex verslanir fá 17 milljónir

Markmiðið með styrkjunum er að styðja við dagvöruverslanir í minni …
Markmiðið með styrkjunum er að styðja við dagvöruverslanir í minni byggðarlögum fjarri stórum byggðakjörnum á fámennum markaðssvæðum. Ljósmynd/Colourbox

Innviðaráðherra hefur staðfest tillögur valnefndar um verkefnastyrki sem veittir eru á grundvelli stefnumótandi byggðaáætlunar fyrir árin 2022-2036. Að þessu sinni var úthlutað sautján milljónum kr. til verslana í dreifbýli fyrir árið 2025.

Þetta kemur fram á vef innviðaráðuneytisins. 

Tekið er fram, að markmiðið með styrkjunum sé að styðja við dagvöruverslanir í minni byggðarlögum fjarri stórum byggðakjörnum á fámennum markaðssvæðum til að viðhalda mikilvægri grunnþjónustu. Ýmist séu veittir rekstrarstyrkir eða styrkir til endurbóta eða sjálfvirknivæðingar.

Umsóknir fyrir 41,8 milljónir

Samtals bárust sex umsóknir fyrir samtals 41,8 milljónir.

Eftirtaldar verslanir fengu styrki:

  • Bakka-Búðin ehf., Reykhólum – 5 m.kr. rekstrarstyrkur
  • Verzlunarfjelag Árneshrepps – 3 m.kr. rekstrarstyrkur
  • Hríseyjarbúðin – 2,5 m.kr. styrkur til endurbóta og sjálfvirknivæðingar
  • North East Travel ehf, Bakkafirði – 1,5 m.kr. rekstrarstyrkur
  • Gunnubúð ehf., Raufarhöfn – 3 m.kr. styrkur til endurbóta
  • Verslunarfélag Drangsness – 2 m.kr. rekstrarstyrkur

Þriggja manna nefnd fór yfir umsóknirnar

Þá kemur fram að þriggja manna valnefnd hafi farið yfir umsóknirnar og gert tillögur til ráðherra.

Í valnefnd sátu þau Elín Gróa Karlsdóttir, verkefnisstjóri hjá Ferðamálastofu, Sigurður Árnason, sérfræðingur á Byggðastofnun, sem jafnframt er formaður og Snorri Björn Sigurðsson fyrrverandi forstöðumaður þróunarsviðs Byggðastofnunar. Með valnefnd starfaði Sigríður K. Þorgrímsdóttir sérfræðingur hjá Byggðastofnun.

Skipun valnefndar og mat umsókna voru í samræmi við reglur um úthlutun innviðaráðherra á framlögum sem veitt eru á grundvelli stefnumótandi byggðaáætlunar fyrir árin 2022-2036, segir enn fremur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert