„Stórkostlegt og alvarlegt skeytingarleysi“

Einar Freyr Elínarson sveitarstjóri í Mýrdalshreppi.
Einar Freyr Elínarson sveitarstjóri í Mýrdalshreppi. mbl.is/Sigurður Bogi

Það kveður við þungan tón hjá Mýrdælingum út af rafmagnsleysinu að sögn bæjarstjóra Mýrdalshrepps. Hjúkrunarheimilið og heilsugæslan urðu rafmagnslaus í nokkra tíma og aflýsa þurfti skólastarfi þar sem grunnskólinn varð einnig rafmagnslaus. Þá duttu út fjarskiptasendar og víða í sveitarfélaginu gat fólk því ekki hringt, farið á internetið né notað rafmagn.

Enn er hálfur bærinn rafmagnslaus og Rarik vinnur að því að koma varaaflsstöðvum í bæinn, en bæjarstjórinn segir Rarik og Landsnet hafa sýnt sveitarfélaginu stórkostlegt skeytingarleysi.

„Það er mjög þungt hljóð í okkur,“ segir bæjarstjórinn Einar Freyr Elínarson í samtali við mbl.is.

Staðan jafnvel verri núna

Í byrjun september varð samskonar bilun þar sem allur bærinn varð rafmagnslaus og einnig nærsveitir.

„Að mörgu leyti má segja að staðan sé verri núna en hún hefur verið áður vegna þess að við fáum ekki einu sinni rafmagn á grunnskólann hjá okkur. Við gátum ekki haldið úti skólastarfi,“ segir Einar og bætir við að það sé vegna þess að ekki sé varaafl á svæðinu.

Hann segir að í nótt og morgun hafi á tímabili orðið rafmagnslaust á hjúkrunarheimilinu og á heilsugæslunni.

„Við erum að tala um að stofnanir þar sem fólk þarf lífsnauðsynlega á þjónustu að halda, eins og hjúkrunarheimili og heilsugæsla, þær verða líka rafmagnslausar,“ segir hann.

Bil­un­in á Vík­ur­streng, sem olli raf­magns­leysi í Vík og Mýr­dal um klukk­an hálfþrjú í nótt, er lík­lega í strengn­um þar sem hann er plægður und­ir Skógá. Rarik gaf út tilkynningu fyrr í dag þar sem sagði að líklega væri ekki hægt að hefja viðgerðir á strengn­um í dag og þætti því ljóst að keyra þyrfti vara­afl í nokk­urn tíma í viðbót.

Aldrei fleiri íbúar og margir ferðamenn

Einar segir Rarik hafa ætlað í langan tíma að setja upp almennilegt varaafl þar sem rafmagnsbilanir séu tíðar á svæðinu sökum veðurs.

Það hefur hins vegar enn ekki gerst og því þarf að flytja varaaflsstöðvar annars staðar af landinu á Vík sem tekur sinn tíma.

Hann segir að bæjaryfirvöld hafi talað um þetta árum saman en ekkert gerist. Hann bendir á að íbúar hafi aldrei verið fleiri og í þokkabót sé fjöldi af ferðamönnum í sveitarfélaginu sem séu kannski ekki með mat með sér og geti heldur ekki keypt sér mat þar sem búðir og veitingastaðir eru lokaðir.

„Þetta er stórkostlegt og alvarlegt skeytingarleysi sem Landsnet og Rarik hafa sýnt þessu svæði til þessa,“ segir Einar.

Vík í Mýrdal.
Vík í Mýrdal. mbl.is/Sigurður Bogi

Gera kröfu um varanlegt varaafl

Hann kveðst sýna því skilning á því að menn hafi ekki stjórn á veðrinu en þeir hafi stjórn á því hvaða verkfæri séu til staðar til að bregðast við rafmagnsleysi.

„Þeir einfaldlega hafa ekki tryggt þau verkfæri þannig við munum að sjálfsögðu gera kröfu um að það verði varanlegt varaafl hérna á svæðinu. Þetta hefur gríðarlega mikil áhrif á öryggi og öryggistilfinningu fólks. Við verðum líka að taka mið af fjölda ferðamanna hér á svæðinu,“ segir hann og bendir á að heilu hótelin verði vatnslaus, þar sem sum þeirra fá vatn úr borholum sem ganga fyrir rafmagni.

Bæjarstjórn mun líklega láta í sér heyra

En auk þess að stofnanir hafi orðið rafmagnslausar þá duttu út fjarskiptasendar vegna rafmagnsleysis.

„Það má því segja að þegar rafmagnið fer að þá eiginlega hættum við að vera til. Það er ekkert rafmagn, það er ekkert internet og það er ekkert símasamband,“ segir Einar en víða í sveitinni var símasambandslaust fram undir hádegi í dag.

Hann hyggst ræða við bæjarstjórn og segir að búast megi við því að hún muni láta heyra í sér. Það sé eðlileg krafa að komi verði upp varanlegu varaafli og á sama tíma verði farið í tafarlausa stefnumótun til framtíðar.

„Það er gríðarlegur vöxtur hérna á svæðinu og mikil áframhaldandi uppbygging sem á eftir að verða en það virðist vera að Landsnet sé einhverjum 20 árum á eftir,“ segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert