Íslendingar eru í hópi þeirra Evrópuþjóða þar sem stór hluti íbúa sem komist hafa á eftirlaun heldur áfram að vinna samhliða því að fá greiddan eftirlaunalífeyri.
Eurostat, hagstofa Evrópusambandsins, hefur birt samanburð þar sem kannað var á síðasta ári hversu stór hluti íbúa í Evrópulöndum á aldrinum 50 til 74 ára hélt áfram störfum á vinnumarkaði á fyrstu sex mánuðunum eftir að þeir hófu að taka út lífeyri. Í ljós kemur að í löndum Evrópusambandsins héldu að meðaltali 13% fólks á þessum aldri áfram að vinna eftir að greiðsla eftirlauna hófst. 64,7% hættu að vinna en 22,4% voru ekki á vinnumarkaði þegar þeir byrjuðu að fá eftirlaun.
Á Íslandi héldu 42,3% íbúa á þessum aldri áfram að vinna eftir að þeir hófu að taka úr eftirlaunalífeyri. 33% ákváðu á hinn bóginn að láta af störfum. 24.2% héldu óbreyttu starfi sínu og starfshlutfalli á vinnumarkaði og þáðu jafnframt lífeyrisgreiðslur en 18,1% minnkaði við sig vinnu eða gerði aðrar breytingar á störfum sínum.
Aðeins þrjú lönd eru fyrir ofan Ísland í þessum samanburði á fjölda þeirra sem halda áfram að vinna samhliða töku eftirlauna en það eru Eystrasaltslöndin þrjú.