Stéttarfélagið Efling hefur sent erindi á forsvarsfólk 108 veitingastaða á höfuðborgarsvæðinu, sem samkvæmt nýjustu tiltæku upplýsingum Eflingar eru aðilar að SVEIT, samtökum fyrirtækja á veitingamarkaði.
Í erindinu er forsvarsfólki veitingastaðanna gerð grein fyrir þeim aðgerðum sem Efling hyggst grípa til vegna kjarasamnings SVEIT við stéttarfélagið Virðingu, sem SVEIT stendur sjálft að baki.
Efling, Starfsgreinasambandið, ASÍ, BSRB, BHM og fleiri hafa gagnrýnt stofnun Virðingar og sagt það ganga gegn grundvallarreglum á vinnumarkaði. Í yfirlýsingu sem BSRB og BHM sendu frá sér í morgun sagði jafnframt að það væri forkastanlegt að atvinnurekendur væru að grafa undan réttindum launafólks í eiginhagsmunaskyni.
Í tilkynningu frá Eflingu er bent á að stéttarfélaginu Virðingu sé stýrt af atvinnurekendum úr röðum SVEIT og nánum fjölskyldumeðlimum þeirra, en ekki verkafólki.
„Svokallaður kjarasamningur milli Virðingar og SVEIT er, fyrir utan að samrýmast ekki ákvæðum íslenskra laga, til þess gerður að skerða réttindi starfsfólks til hagsbóta fyrir atvinnurekendur,“ segir í tilkynningunni.
Þær aðgerðir sem Efling hyggst grípa til eru meðal annars að birta opinberlega nöfn á fyrirtækjum og vörumerkjum aðilarfyrirtækja SVEIT, heimsóknir og aðgerðir á vettvangi þar sem starfsfólk verður upplýst um árásir á launakjör þess og stuðningur við mótmæli.