Tveir lausir hundar í Laugardalshverfi í Reykjavík eru sagðir hafa drepið kött fyrr í kvöld.
Mikil umræða um hundana skapaðist á Facebook-grúppu íbúa Langholtshverfis þar sem kattareigendum var meðal annars bent á að taka kettina sína inn.
Í skriflegu svari til mbl.is segir ein kona, Petra María, að köttur kærasta síns hafi verið drepinn af hundunum og að lögregla hafi komið og bókað málið.
Þá vissi hún ekki til þess að aðrir kettir hefðu orðið fyrir barðinu á hundunum í kvöld, sem í Facebook-hópnum eru sagðir vera af Weimaraner-tegundinni, en skildist henni að þeim hefði nú verið náð og þeir komnir í hendur Dýraþjónustu Reykjavíkur.
Fulltrúi Dýraþjónustunnar vildi þó ekki svara neinum spurningum í samtali við mbl.is er hann var spurður hvort hundunum hefði verið náð.
Svipað atvik kom upp fyrir um þremur árum síðan er tveir hundar drápu kött í Laugarneshverfinu. Óvíst er hvort um sömu hunda sé að ræða, en eigandi þeirra fékk þá aftur eftir að dýraeftirlit tók þá af honum í tengslum við rannsókn málsins.