Tvær vikur eru þar til fjölskyldur þessa lands safnast saman í stofum sínum og skiptast á gjöfum í tilefni jóla. Gjarnan er það gert í kringum eða nærri jólatrjám.
Mjög algengt er að fólk kjósi að hafa gervijólatré uppi við um jólin en ef marka má niðurstöður úr könnun Maskínu frá því í desember á síðasta ári setja 55% heimila upp slík fjölnota tré, tæp 29% lifandi jólatré og rúm 16% setja ekki upp jólatré yfir hátíðirnar.
Jólatré komu fyrst til sögunnar í Þýskalandi á seinni hluta 16. aldar í kjölfar siðaskiptanna og breiddist siðurinn að hafa jólatré á heimilum fyrst út meðal mótmælenda.
Um miðja 19. öld sáust fyrstu jólatrén á Íslandi, heimasmíðuð því þá uxu grenitré ekki villt hér á landi, en um miðja 20. öld fóru lifandi grenitré að verða almenn á Íslandi, í fyrstu innflutt en í kringum 1970 komu íslensk grenitré á markað.
Jón Ásgeir Jónsson, skógfræðingur hjá Skógræktarfélagi Íslands, segir markaðinn af lifandi jólatrjám á Íslandi telja um 40 þúsund grenitré og að innlend tré séu um fjórðungur markaðarins. Segir Jón Ásgeir íslenska framleiðslu hafa verið mjög stöðuga í grunninn og svipað magn hafi verið framleitt síðustu tvo til þrjá áratugina af íslenskum jólatrjám.
„Þetta hefur verið að rokka á milli 8 til 10 þúsund trjáa. Framleiðslan jókst aðeins eftir hrun og þá fórum við hæst í rúm 11 þúsund tré,“ segir Jón en bætir við að síðan hafi framleiðslan dregist saman áður en hún hafi svo aftur risið á allra síðustu árum.
Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag.