„Við getum staðfest að það var köttur sem hundarnir komust í og drápu, sem er mjög miður,“ segir Þorkell Heiðarsson, deildarstjóri dýraþjónustu Reykjavíkur, um tvo lausa hunda sem vöktu athygli í Laugardalshverfi í gær.
Þorkell segir starfsmenn dýraþjónustunnar, með hjálp íbúa, hafa náð hundunum í gærkvöldi en einn þeirra hafi að vísu sloppið.
Hann sé þó kominn í leitirnar og sé hjá eiganda sínum á meðan hinn er í haldi dýraþjónustunnar.
„Við erum með einn hund í haldi sem við náðum í gærkvöldi og hann verður í haldi áfram og svo er bara verið að vinna í málinu,“ segir Þorkell og tekur fram að dýraþjónustan sé þá í samráði við aðrar stofnanir á borð við Matvælastofnun og heilbrigðiseftirlitið.
„Þetta er auðvitað ekki ásættanlegt. Þannig við erum líka bara að skoða hvað sé réttast að gera í málinu.“
Hann segir málið vera í vinnslu og að lítið sé hægt að segja í augnablikinu um stöðu þess en tekur hann þó fram að þjónustan hafi áður haft afskipti af þessum og skyldum hundum.
Í sumar voru hundar af sömu tegund grunaðir um að hafa drepið kött í Laugardalnum er þeir voru lausir. Segir Þorkell að dýraþjónustan telji að hundarnir séu líklega ekki þeir sömu. Þó séu þeir líklega úr sömu hundafjölskyldu og verið sé að skoða það.
„Þegar þetta er svona hundafjölskylda þá þarf að skoða örmerki og hvaða hundar hafa komið við sögu í hvaða máli. Þeir líta þannig út að svona fljótt á litið séu þetta alltaf sömu hundarnir en það er ekkert alltaf þannig.“
Í umræðu á Facebook-hópi íbúa í Langholtshverfi í gærkvöldi var mögulega talið að hundarnir væru af Weimaraner-tegund en Þorkell segir svo ekki vera heldur að líklega sé um að ræða ungverska Vizsla.
Segir Þorkell að svo virðist sem að um hafi verið að ræða mikla hóphegðun sem verði þegar svona hundar, fleiri en einn, fari á flandur.
„Þeir komast í einhverja svona stemmningu þegar þeir eru fleiri saman og svo kannski eru þetta vænstu hundar svona einir og sér.“
Eins og fyrr segir slapp einn hundanna í gær frá dýraþjónustunni og er kominn til eiganda síns.
Verður sá hundur sóttur?
„Við erum bara að skoða allar hliðar á þessu máli núna. Það sem okkur ber að gera er líka að skoða þetta út frá almannaheill.
Það er kannski stóra málið í þessu að hundar sem eru með þessa hegðun og eru lausir og nást ekki nema með verulegu átaki, við lítum á það mjög alvarlega og við lítum á það sem ógn við almannaheill,“ segir Þorkell og nefnir að þjónustan muni taka á málinu í samræmi við það.
Þá upplýsir hann að kötturinn sem var drepinn í gær hafi verið sendur í skoðun þar sem verið er að kryfja hann og segir Þorkell að dýraþjónustan vilji fá á hreint hvað gerðist.
„Það skiptir líka máli. Það er stundum þannig að ýmislegt er sagt á netinu og það er mjög mikilvægt að fá svona hluti staðfesta og að það sé gert þá faglega.“
Veistu hvað hundurinn verður lengi í haldi ykkar?
„Nei, við erum bara, eins og ég segi, að skoða það en við töldum okkur, eftir það sem gerðist í sumar, vera búin að gulltryggja það að þessir hundar væru ekki í lausagangi, að hópast svona saman og töldum þar til í gær að það væri í lagi en það greinilega er ekki.
Í ljósi þess þá erum við að meta algjörlega stöðuna og tryggja það að við munum ekki gera neitt í málinu nema það sé tryggt að þessir hundar fari ekki í svona lausagöngu aftur.“