Dæmi um að níðingar nálgist börn í gegnum Playstation

Ævar Pálmi Pálmason, yfirmaður kynferðisbrotadeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir mikilvægt …
Ævar Pálmi Pálmason, yfirmaður kynferðisbrotadeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir mikilvægt fyrir foreldra að vera vakandi fyrir því hvað börnin eru að gera á netinu. Samsett mynd

Ævar Pálmi Pálmason, yfirmaður kynferðisbrotadeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir mikilvægt að taka alvarlega það sem fram kemur í Íslensku æskulýðsrannsókninni, að 280 börn í 8. til 10. bekk hafi svarað játandi að einhver fullorðinn hafi misnotað þau kynferðislega.

„Við verðum að taka mark á þessum tölum og taka þær alvarlega. Þetta er eins og er það besta rannsóknin sem við höfum sem gefur ákveðnar vísbendingar,“ segir Ævar í samtali við mbl.is.

Í sömu rannsókn svöruðu 750 börn á sama aldri því játandi að jafnaldri hefði beitt þau kynferðisofbeldi.

Í lok nóvember var rætt við Kolbrúnu Hrund Sigurgeirsdóttur, verkefnastýru ofbeldis- og kynheilbrigðismála hjá Barnaheill, sem sagði stöðuna töluvert verri en flestir gerðu sér grein fyrir, þegar kemur að kynferðisofbeldi gegn börnum. Þreytu hefði gætt í umræðu um kynferðisofbeldi og málaflokkurinn orðið út undan. Fyrir vikið hefði ofbeldið þrifist sem aldrei fyrr.

Má leiða að því líkur að færri tilkynni

Ævar tekur undir með Kolbrúnu að umræðan um hafi minnkað, enda komi hún oft í bylgjum.

„Auðvitað hefur opinber umræða um kynferðisbrot minnkað, kannski eðlilega því þetta kemur oft í bylgjum. Það var gríðarleg umræða í kringum #metoo-bylgjurnar, hvort það sé hægt að segja að umræðan sé þreytt, ég þori ekki að fara með það, en við finnum fyrir því að umræðan hefur klárlega minnkað,“ segir Ævar.

„Hvort það eitt og sér hafi áhrif á það hvort fólk komi síður og tilkynni brot, en það má alveg leiða að því líkum. Það er alveg á hreinu að þegar umræðan er meiri um tiltekna málaflokka, þá finnum við fyrir því í tilkynningum á þeim málaflokkum.“

Brot gegn börnum 45% allra tilkynninga

Á síðasta ári voru kynferðisbrot gegn börnum 45 prósent allra kynferðisbrota sem tilkynnt voru til lögreglu, eða 71 brot. Stór hluti þeirra fellur undir stafræn kynferðisbrot, eða eitthvað sem byrjar sem stafrænt brot og verður svo líkamlegt.

Almennt hefur orðið mikil fjölgun á stafrænum kynferðisbrotum og eru börn oft bæði þolendur og gerendur í slíkum málum. 

„Ég hef oft komið inn á þetta áður með snjalltækin, eins og þau eru góð og bjóða upp á mikil gæði, hvað þau geta verið hættuleg líka og boðið hættunni heim. Sérstaklega með yngri börn, foreldrar verða að vera meira á verði og vakandi fyrir því hvað þau eru að gera þegar þau láta barnið sitt hafa snjallsíma og opna fyrir þau inn á internetið.“

Samskipti í gegnum tölvuleiki varasöm

Kolbrún benti á að skynsöm börn gætu líka lent í klónum á níðingum sem plata þau upp úr skónum. Ævar tekur undir það.

„Það geta allir lent í því. Ásættanlega skynsamt fólk á öllum aldri. Markmiðið er að blekkja eða tæla og það er ekkert skrýtið að vel skynsamt fólk falli í gryfjuna. Þetta er bara eins og innbrotsþjófar í raunheimum, þeir reyna að dylja slóð sína með því að fela fótsporin eða setja upp hanska þegar þeir brjótast inn.“

Þá bendir Ævar á að það séu ekki bara samskiptaforritin í snjalltækjunum sem séu varasöm, heldur eigi það líka við um alla tölvuleiki þar sem hægt er að hafa samskipti við annað fólk í gegnum netið. Eins og til dæmis tölvuleikurinn Roblox sem er mjög vinsæll meðal barna og unglinga og hægt er að spila í snjalltækjum, PC-tölvu og Playstation.

„Þetta er bara annar vettvangur. Það er mörgum sem finnst Roblox vera saklaus. En við höfum verið með dæmi og brot hérna á Íslandi þar sem brotamaður tældi unga drengi á Playstation, þeir voru að spila leiki á netinu.“

Foreldrar hugsi sig tvisvar um

Aðspurður hvort lögreglan geti með einhverjum hætti gripið inn í varðandi forvarnir, svarar hann því játandi, lögreglan geti haft áhrif, en það þurfi allir að taka höndum saman.

„Þarna þarf allt samfélagið að stíga inn. Ekki bara stofnanir, skólarnir eða lögreglan, heldur líka kannski mikilvægasta stofnunin af öllum, sem er fjölskyldan.“

Ævar segir að allt byrji þetta heima og því sé mikilvægt að foreldrar hugsi sig tvisvar um eða undirbúi börnin sín áður en þau fá snjallsíma. Fræðsla og forvarnir sé það sem skipti mestu máli. Það hafi sýnt sig að það skili árangri.

„Þegar það er umræða um tiltekna málaflokka eða brotaaðferðir, í svona litlu samfélagi eins og Íslandi, þá kemst meðvitundin út í samfélagið tiltölulega fljótt. Þá sést yfirleitt að í kjölfar umræðunnar þá áttar fólk sig á því eða fræðist og finnur fyrir forvörnunum.“

Mikilvægt sé að viðhafa stöðuga fræðslu og forvarnir, ekki bara að fara í tímabundin verkefni.

Þá sé gott að nýta vettvanginn, það sem snjallsíminn og netið bjóði upp á, til að fræða börn. Líklega sé auðveldast að ná til þeirra með þeim hætti.

„Ég held að flest börn eyði meiri tíma í hinum stafræna heimi heldur en ég gerði í félagsmiðstöðinni í gamla daga eða úti í leikjum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert