Stefnt að stjórn fyrir áramót: Ráðuneytum fækkað

Kristrún Frostadóttir ræddi við mbl.is í þinghúsinu.
Kristrún Frostadóttir ræddi við mbl.is í þinghúsinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Formenn Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Flokks fólksins stefna að því að mynda ríkisstjórn fyrir áramót. Ráðuneytum mun fækka ef flokkarnir mynda ríkisstjórn.

Þetta segir Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, í samtali við mbl.is.

„Ég held að við stefnum allar að því að þessu verði lokið fyrir áramót. Við finnum bara til mikillar ábyrgðar á því að vera ekki að draga þetta á langinn. Við viljum hins vegar vinna þetta vel, við þurfum að fá ákveðnar upplýsingar og vita að hverju við göngum áður en við skrifum stjórnarsáttmála,“ segir Kristrún aðspurð.

Talað sig í gegnum flest ágreiningsmál

Hún segir ábyrgðarleysi að setja dagsetningu á það hvenær stjórnarmyndunarviðræðum lýkur.

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, sagði í samtali við mbl.is í gær að það þyrfti eitthvað einkennilegt að gerast svo ekki yrði af ríkisstjórn flokkanna.

Spurð hvort hún taki undir þessi ummæli segir Kristrún að viðræðurnar hafi gengið vel þó að það séu vissulega uppi ágreiningsmál.

„Við höfum getað talað okkur í gegnum flest þeirra, sums staðar erum við að leita að ákveðnum útfærslum og lendingum en við sjáum bara miklu fleiri sameiginlega fleti heldur en fleti þar sem er ágreiningur um,“ segir Kristrún.

„Við munum fækka ráðuneytum“

Hún segir að flokkarnir séu sammála um að fækka ráðuneytum en þó séu flokkarnir ekki byrjaðir að ræða ráðherraskipan. Hún segir að nú sé verið að vinna að því hvernig sé hægt að straumlínulaga stjórnarráðið.

„Okkur fannst í raun fjöldi ráðherra orðinn allt of mikill. En við viljum líka gera þetta vel, við viljum ekki fara í óþarfa breytingar. Þannig við erum byrjaðar að hugsa hvaða breyting gæti verið til hagsbóta fyrir Stjórnarráðið,“ segir hún.

Munið þið fækka ráðuneytum?

„Við munum fækka ráðuneytum. Við erum allar ákveðnar í því að það sé hægt að fækka ráðuneytum og svo er bara spurning um útfærsluna.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert