Fjarfundur norrænu utanríkisráðherranna fór fram í dag þar sem efst á baugi voru málefni Úkraínu, þróun mála í Sýrlandi og samskipti við Bandaríkin.
Þetta segir í tilkynningu frá utanríkisráðuneyti Íslands.
„Ráðherrarnir voru einhuga um mikilvægi þess að halda áfram dyggum stuðningi við Úkraínu sem nú hefur varist ólöglegu og blóðugu innrásarstríði Rússlands í meira en 1000 daga. Norðurlöndin hafa veitt Úkraínu stuðning á þessum tíma og er ríkur vilji hjá ríkjunum að honum verði framhaldið,“ segir þar enn fremur.
Þá var einnig til umræðu fall Assad-harðstjórnarinnar í Sýrlandi síðastliðna helgi á fundinum og kemur fram að ráðherrarnir fylgist náið með hvernig mál munu þróast þar á næstu misserum og hvort staðan komi til að hafa áhrif á gang mála á Gasasvæðinu og víðar.
Þá mun ný ríkisstjórn Donald Trumps taka við í Bandaríkjunum 20. janúar og áréttuðu norrænu ráðherrarnir á fundinum mikilvægi þess að standa vörð um náið samstarf Norðurlandanna og Bandaríkjanna.
„Utanríkisráðherrar Norðurlandanna starfa náið saman undir formerkjum N5 en í dag var síðasti fundur þeirra á formennskuári Svíþjóðar. Finnland tekur við formennsku í norræna utanríkismálasamstarfinu á næsta ári.“
Segir í tilkynningunni að María Mjöll Jónsdóttir, skrifstofustjóri alþjóðapólitískra málefna, hafi sótt fundinn fyrir hönd Íslands í fjarveru Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra.