Vara við gervistéttarfélagi

Vilhjálmur Birgisson er formaður Starfsgreinasambandsins sem sendir frá sér ályktun …
Vilhjálmur Birgisson er formaður Starfsgreinasambandsins sem sendir frá sér ályktun um stéttarfélagið Virðingu. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þau kjör sem Virðing býður félagsfólki sínu eru ekki í samræmi við þá samninga sem eru í gildi í veitingageiranum,“ er meðal þess sem formannafundur Starfsgreinasambandsins ályktar í dag og kemur fram í fréttatilkynningu sambandsins.

Segir þar að fundargestir vari starfsfólk við „meintu „stéttarfélagi“ sem stofnað var nýverið og ber heitið Virðing. Virðing ber öll merki þess að vera gervi „stéttarfélag“, stofnað af hálfu atvinnurekenda í veitingageiranum, stendur utan heildarsamtaka launafólks og hefur gert gervikjarasamning sem er ekki í nokkru samræmi við þá lögmætu samninga sem eru í gildi í veitingageiranum.“

Verulegar skerðingar á launum

Ályktaði fundurinn sem svo að þau kjör sem Virðing byði félagsfólki sínu væru ekki í samræmi við gilda samninga í veitingageiranum. Þvert á móti fæli kjarasamningur Virðingar við Samtök fyrirtækja á veitingamarkaði í sér verulegar skerðingar á launum starfsfólks og réttindum þess og eru eftirfarandi atriði talin upp í tilkynningu SGS:

  • Dagvinna er greidd á virkum dögum til kl. 20:00 (til kl. 17:00 hjá SGS)
  • Vaktaálag á virkum kvöldum eftir kl. 20 er 31% (33% álag eftir kl. 17:00 hjá SGS)
  • Dagvinna á laugardögum til kl. 16:00 (45% álag allan daginn hjá SGS)
  • 31% álag á sunnudögum (45% álag hjá SGS)
  • Ekkert stórhátíðarkaup
  • Kjör ungmenna á aldrinum 18-21 árs eru skert
  • Heimilt að gera breytingar á starfshlutfalli með viku fyrirvara (uppsagnarfrestur gildir hjá SGS)
  • Réttur barnshafandi kvenna er skertur
  • Lakari veikindaréttur starfsfólks og vegna barna
  • Lakari orlofsréttur
  • Lakari uppsagnarfrestur
  • Ekkert um sérstaka sjóði og greiðslur í þá
  • Ýmis félagsleg réttindi eru skert sem og réttindi og möguleikar trúnaðarmanna á að gegna starfi sínu.

„Því skal haldið til haga að um umrædd störf er í gildi kjarasamningur milli Starfsgreinasambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins sem kveður á um lágmarkskjör fyrir alla í viðkomandi starfsgrein,“ segir svo.

Samkvæmt lögum sé óheimilt að semja um lakari kjör en kveðið er á um í þeim samningi. Samningur Virðingar og SVEIT grafi á alvarlegan og ólögmætan hátt undan réttindum launafólks og þeim kjarasamningi sem það starfar eftir.

Með þrotlausri baráttu

„Formannafundur Starfsgreinasambands Íslands fordæmir þessa ófyrirleitnu aðför sem gengur út á að brjóta upp samstöðu meðal starfsfólks í greininni og fer á svig við þau lög og reglur sem gilda á íslenskum vinnumarkaði,“ ályktuðu fundarmenn.

Þá kemur fram að SGS hvetji félagsfólk til að standa þétt saman um sín kjarasamnings- og lögbundnu réttindi og hafa samband við sitt stéttarfélag til að afla sér frekari upplýsinga um sín réttindi og stöðu.

„Aðildarfélög sambandsins munu nú sem endranær standa þétt að baki sinna félagsmanna og verja þeirra réttindi – réttindi sem hafa byggst upp í gegnum árin með þrotlausri baráttu og samstöðu.

SGS krefst þess að SVEIT láti af þessari alvarlegu aðför að kjörum og réttindum verkafólks á veitingamarkaði og virði þau lámarksréttindi sem um hefur verið samið á íslenskum vinnumarkaði,“ kemur að lokum fram í tilkynningu sambandsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert