Árásarmál á Vopnafirði: Gæsluvarðhald framlengt

Hinn grunaði hefur verið í gæsluvarðhaldi frá 19. október.
Hinn grunaði hefur verið í gæsluvarðhaldi frá 19. október. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Gæsluvarðhald yfir manni sem er grunaður um alvarlega líkamsárás gagnvart fyrrverandi sambýliskonu sinni á Vopnafirði í október hefur verið framlengt um fjórar vikur en gæsluvarðhaldið átti að renna út í dag.

Þetta staðfestir Karl Ingi Vilbergsson, saksóknari hjá embætti héraðssaksóknara, við mbl.is en maðurinn hefur setið í gæsluvarðhaldi frá 19. október. Rannsókn lögreglunnar á Austurlandi er lokið og er málið komið til héraðssaksóknara.

Maðurinn er grunaður um að hafa veist að fyrrverandi sambýliskonu sinni og reynt að stinga hana í kviðinn og herða að öndunarvegi hennar með járnkarli.

Óttaðist um líf sitt

Konan, sem heitir Hafdís Bára Óskarsdóttir, steig fram í Kastljósi RÚV í fyrrakvöld en þar sagði hún að lögreglan og kerfið hafa brugðist henni. Hún segir að maðurinn hafi ofsótt hana mánuðum saman og beiðni um nálgunarbann hafi verið hafnað nokkrum klukkustundum fyrir árásina.

Maðurinn réðst á Hafdísi inni í skemmu fyrir utan heimili hennar og lýsir hún árásinni þannig í viðtalinu í Kastljósi:

„Hann teygir sig í járnkallinn og ræðst á mig. Það fyrsta sem hann gerir er að reyna stinga mig í kviðinn, tvisvar eða þrisvar sinnum. Hann nær að hrinda mér í gólfið og sest ofan á mig og setur járnkarlinn yfir hálsinn á mér og þrýstir bara.“

Hún segist hafa óttast um líf sitt og hafi reynt að fá manninn til að hugsa um syni hennar en þann yngri eiga þau saman.

Hafdís lá á sjúkrahúsi í nokkra daga með margs konar áverka og enn þann dag í dag er hún með takmarkaða getu í hægri handleggnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert