Bjóða upp á bætt aðgengi að Jólaskógi í dag

Umhyggja og CP-félagið niðurgreiða sýninguna í Elliðaárdalnum og kostar miðinn …
Umhyggja og CP-félagið niðurgreiða sýninguna í Elliðaárdalnum og kostar miðinn því einungis þúsund krónur. Mynd úr safni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Boðið verður upp á aukasýningar af Ævintýri í Jólaskógi með bættu aðgengi í dag, 11. desember. Sýningin hefur verið á vegum Jólasveina.is síðastliðin fimm ár en í fyrra höfðu Umhyggja, félag langveikra barna, og CP-félagið, félag einstaklinga með CP og aðstandenda, samband við leikhópinn og óskuðu eftir samstarfi með ósk um bætt aðgengi á sýninguna.

Sýningin hefur verið og er enn til sýnis í Guðmundarlundi í Kópavogi en aukasýningin með bættu aðgengi verður haldin við rafstöðina í Elliðaárdal.

Þórdís Helgadóttir Thors hjá Umhyggju segir þetta annað árið í röð sem blásið sé til sýningar á jafnsléttu í Elliðaárdalnum. „Þetta heppnaðist rosalega vel í fyrra þannig að við ákváðum að endurtaka leikinn í ár.“

Niðurgreiða sýninguna

Umhyggja og CP-félagið niðurgreiða sýninguna í Elliðaárdalnum og kostar miðinn því einungis þúsund krónur. Hún segir alla velkomna á sýninguna og þá alveg sama af hvaða ástæðu fólk þurfi bætt aðgengi.

„Það eru allir velkomnir óháð því hvort börnin séu langveik eða fötluð eða hvort fólk sé í félaginu eða ekki, bara fólk sem þarf af einhverjum ástæðum bætt aðgengi. Það gætu alveg eins verið ömmur eða afar sem notast við staf og vilja fara með barnabörnin eða foreldrar með barn í kerru og treysta sér ekki í Guðmundarlund.“

Aukasýning með bættu aðgengi fer fram við rafstöðina í Elliðaárdal.
Aukasýning með bættu aðgengi fer fram við rafstöðina í Elliðaárdal. Ljósmynd/Reykjavíkurborg

Lífið í Grýluhelli

Fyrsta sýningin hefst klukkan 17 í dag og þá leggur fyrsti hópurinn af stað í vasaljósaferðalag inn í dalinn en sýningar hefjast á tólf mínútna fresti. Eftir stutt ferðalag koma áhorfendur að fyrsta sviðinu þar sem flutt er jólasaga um ævintýri tröllafjölskyldunnar, lífið í Grýluhelli og jól fyrri tíma. 

Verkið er tæpar tíu mínútur í flutningi og þegar því lýkur heldur hópurinn áfram ferð sinni um dalinn, en um er að ræða fjögur svið í heild. Fært er fyrir hjólastóla um sýninguna og hún hentar einnig þeim sem eiga erfitt með að ganga langar vegalengdir.

Þórdís segir að fólk sé hvatt til þess að koma með vasaljós með sér og að enn sé nóg af miðum á sýninguna sem má nálgast á vefsíðu Tix. „Þetta er ótrúlega skemmtilega sýning og það er alveg sama hvaða ástæða er fyrir því að þurfa bætt aðgengi, það eru öll velkomin.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert