Samtök fyrirtækja á veitingamarkaði (SVEIT), hafa ákveðið að taka til endurskoðunar kjarasamninga þá sem í gildi eru við stéttarfélagið Virðingu.
Er ákvörðunin tekin vegna mikillar gagnrýni og boðaðra aðgerða stéttarfélagsins Eflingar gagnvart veitingastöðum undir hatti SVEIT, að kemur fram í tilkynningu.
Samtökin hafna því hins vegar að verið sé að brjóta á réttindum starfsfólki með umræddum kjarasamningum.
Greint var frá því fyrr í dag að um fimmtungur allra þeirra fyrirtækja sem Efling sendi bréf í gær, vegna kjarasamnings SVEIT við Virðingu, um þær aðgerðir sem gripið yrði til, hefði sagt sig úr samtökunum. Þá hefðu enn fleiri sagst ætla að fylgja kjarasamningi Eflingar.
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, hefur sagt að kjarasamningurinn sé til þess gerður að skerða réttindi starfsfólks til hagsbóta fyrir atvinnurekendur.
„SVEIT hafnar því alfarið að verið sé að brjóta á lögbundnum rétti starfsfólks með kjarasamningi við Virðingu, en hefur engu að síður ákveðið að endurskoða kjarasamninga með tilliti til þeirrar gagnrýni sem fram hefur komið. Sú vinna er þegar hafin og er það von SVEIT að Efling láti af fyrirhuguðum aðgerðum meðan sú endurskoðun stendur yfir,“ segir í tilkynningunni.
Tekið er fram að SVEIT séu stærstu atvinnurekendasamtök á veitingamarkaði, og hafi unnið að því að renna styrkari stoðum undir veitingarekstur hér á landi. Miklir erfiðleikar hafi verið í greininni, sem sjáist best á þungum rekstri fjölda veitingastaða.
Kjarasamningar við stéttarfélagið Virðingu hafi verið gerðir eftir að Efling hafnaði kjaraviðræðum og taki þeir mið af eðli veitingareksturs. Með þeim samningum, sem gerðir voru til samræmis við kjarasamninga veitingastaða á Norðurlöndunum, hafi starfsfólki veitingastaða verið tryggð hærri dagvinnulaun og bætt kjör, starfsfólki og rekstraraðilum til hagsbóta.
„Forsvarsmönnum Eflingar hefur verið boðið til samtals um málið en því boði hefur ekki verið svarað. Boðaðar aðgerðir Eflingar gegn félagsmönnum í SVEIT eru fordæmalausar sem vega að atvinnuöryggi tuga lítilla fyrirtækja og starfsfólki þeirra og er miður að Efling hafi ákveðið að fara þá leið og hafna bæði kjaraviðræðum við SVEIT og samtali um skynsamlegar lausnir.“