Dramatík var í álftavarpinu

Ófleygur ungi fékk í gogginn frá móður sinni við Gróttu …
Ófleygur ungi fékk í gogginn frá móður sinni við Gróttu en kríuvarp var í meðallagi á Seltjarnarnesi í ár. Minkur komst ekki í varpið. mbl.is/Anton Brink

Árið í ár var nokkuð gott fyrir fuglalífið á Seltjarnarnesi þrátt fyrir fremur kalt vor og sumar. Kríuvarp var í meðallagi og dramatík var í álftavarpi við Bakkatjörn. Þetta kemur fram í skýrslu sem Jóhann Óli Hilmarsson vann fyrir umhverfisnefnd Seltjarnarness.

Kríuvarpið á Seltjarnarnesi í sumar var í meðallagi; 1.680 hreiður sem er aðeins minna en árið áður þegar þau voru 1.730. Jóhann Óli segir að afkoma kríuunga hafi verið góð og tekist hafi að halda minki frá varpinu. Sem kunnugt er gerði minkur mikinn usla í varpinu árið 2022 og komust fáir ungar á legg það árið.

„Varpið var stærst á Snoppu og óx það nokkuð frá fyrra ári. Varpið í Gróttu óx einnig, þó enn sé það varla svipur hjá sjón miðað við fyrri ár,“ segir í skýrslunni.

Gleðitíðindi bárust af álftum sem urpu í hólmanum í Bakkatjörn og var talsverð dramatík því fylgjandi. Ungar höfðu ekki komist á legg síðan 2017 en í ár kom álftapar fjórum ungum á vatn í byrjun júní. Þrír þeirra drápust þó fljótlega þegar slæmt hret brast á.

„Einn ungi lifði þó og dafnaði vel í umsjá foreldranna, þangað til þeir stungu af kringum 25. júlí. Unginn virtist frekar einmana fyrst á eftir, en þreifst vel á kjarngóðum gróðri og náði sér líka í brauðbita þegar fuglum var gefið. Þegar þetta er ritað er hann orðinn fullvaxinn og fleygur og heldur til á svæðinu. Ekki er vitað hvað varð af foreldrunum, en þetta er fjarska óvanaleg hegðun af hálfu álfta,“ segir Jóhann Óli.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert