Engin heiðvirð manneskja vilji kenna sig við samtökin

Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar vonast til að viðbrögðin verði …
Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar vonast til að viðbrögðin verði til þess að Virðing lognist út af á endanum. mbl.is/Hákon

„Þetta eru viðbrögðin sem við vonuðumst eftir,“ segir Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, um að fimmtungur fyrirtækja í Samtökum fyrirtækja á veitingamarkaði (SVEIT), sem hún sendi bréf í gær vegna kjarasamnings við stéttarfélagið Virðingu, hafi sagt sig úr samtökunum og enn fleiri lýst yfir vilja til að fylgja kjarasamningum Eflingar.

„Við vonuðumst eftir því að atvinnurekendur í veitingarekstri myndu strax sjá að þarna er verið að hafa mjög rangt við og að þeir myndu vilja fjarlægja sig SVEIT sem stendur að baki stofnun þessa gervistéttarfélags Virðingar. Sem hefur útbúið þennan raunverulega glæpsamlega svokallaða kjarasamning,“ segir Sólveig Anna jafnframt í samtali við mbl.is.

Gangi gegn grundvallarreglum

Það var SVEIT sem stofnaði stétt­ar­fé­lagið Virðingu fyr­ir starfs­fólk sitt, en bent hefur verið á að slík ráðstöf­un gangi gegn grund­vall­ar­regl­um á vinnu­markaði. Launa­fólkið sjálft eigi að stofna sín stétt­ar­fé­lög. Þá hefur Sólveig Anna sagt að kjarasamningurinn sé til þess gerður að skerða réttindi starfsfólks til hagsbóta fyrir atvinnurekendur.

Af þeim 108 fyrirtækjum sem fengu bréf frá Sólveigu Önnu í gær, þar sem greint var frá þeim aðgerðum sem gripið yrði til vegna kjarasamnings SVEIT við virðingu, hafa 22 fyrirtæki lýst því að þau hafi gengið úr SVEIT eða hafi óskað eftir úrsögn. Þá hafa alls 33 fyrirtæki lýst því að þau muni fylgja kjarasamningi Eflingar, eða tæpur þriðjungur. Félaginu hafa einnig borist staðfestingar á hinu sama frá fyrirtækjum sem ekki fengu umrætt bréf. 

„Við erum ánægð með þessi viðbrögð og ég vona að þau fyrirtæki sem eiga eftir að svara erindinu frá okkur, geri það í dag, og að þeirra svör verði sambærileg þeim sem við höfum fengið.“

„Til háborinnar skammar“

Sólveig Anna bendir á að Efling geri kjarasamning um störf í veitingageiranum við Samtök atvinnulífsins og þar sé öllum lögum og reglum fylgt. Samningurinn sé svo borinn upp til atkvæðagreiðslu hjá félagsfólki, sem hefur möguleika á að taka þátt í að móta sín eigin kjör. Það séu vinnubrögð sem verkalýðshreyfingin og flestir atvinnurekendur vilji aðhafast. 

„Það að það komi svo einhverjir einstaklingar sem halda að þeir geti endurskrifað lög, reglur og kjarasamninga upp á sitt einsdæmi, án þess að vinnandi fólk komi þar að. Og reynt svo að telja öðrum trú um að það sé ekkert annað en sjálfsagt og eðlilegt að fara að starfa eftir einhverjum svona svikagjörningi er til háborinnar skammar.“

Sólveig Anna vonast því til þess að á endanum lognist stéttarfélagið Virðing út af.

„Af þeirri einföldu ástæðu að engin heiðvirð manneskja vilji láta kenna sig við, hvorki SVEIT, né Virðingu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert