Fallast á aðstoð við talsetningu og textun barnaefnis

Ráðstöfunin stendur til 31. desember 2027.
Ráðstöfunin stendur til 31. desember 2027. Ljósmynd/Colourbox

Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) samþykkti í dag talsetningar- og textunarsjóð fyrir einkarekna fjölmiðla á Íslandi.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá EFTA en þar segir að ráðstöfunin miði að því að stuðla að vernd íslenskrar tungu með því að draga úr hluta kostnaðar við talsetningu og textun barnaefnis.

Lög um fjölmiðla kveða á um að íslenskum fjölmiðlum beri skylda að talsetja eða texta erlent sjónvarpsefni og kvikmyndir í þeirri viðleitni að styrkja íslenska tungu. Sú krafa á bæði við um efni sem birtist í línulegri sjónvarpsdagskrá og á íslenskum mynddeiliveitum.

Þá gera lögin um fjölmiðla einnig kröfu um að allt íslenskt dagskrárefni, þar með talið barnaefni, sé textað til að gera það aðgengilegra fyrir fatlað fólk.

Að hámarki 60 milljónir króna á ári

„Einkareknir fjölmiðlar á Íslandi hafa lýst áhyggjum af miklum kostnaði vegna talsetningar og textunar. Félag rétthafa í sjónvarps- og kvikmyndaiðnaði áætlar að árlega sé jafnvirði nærri 300 milljóna króna varið til talsetningar og textunar erlends hljóð- og myndmiðlaefnis. Þar af leiðandi hefur Ísland komið á fót stuðningskerfi sem mætir ákveðnum kostnaði við talsetningu og textun,“ segir enn fremur í tilkynningunni.

Með ráðstöfuninni er einnig stefnt að því að gera einkareknum fjölmiðlum kleift að kaupa erlent barnaefni til talsetningar eða textunar á íslensku, sem gerir fjölmiðlum kleift að fá aðgengi að nýlegra og fjölbreyttara barnaefni.

Ráðstöfunin stendur til 31. desember 2027 og er gert ráð fyrir að sjóðnum verði að hámarki lagðar til 60 milljónir króna árlega. Aðstoðin tekur til 80% kostnaðar við talsetningu og textun barnaefnis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert