Getur verið að við fáum eitt tækifæri eftir að við erum dáin, til að láta vita af okkur? Þessu hefur Sigurður Ægisson, prestur þeirra Siglfirðinga, oft velt fyrir sér. Hann segir frá tveimur atburðum sem hann hefur upplifað sem hafa orðið kveikjan að þessum vangaveltum hans.
Í fyrsta lagi var það þegar hann óvænt fékk það erfiða verkefni upp í hendurnar að jarðsyngja móður sína. Starfsbróðir hans sem hafði ætlað að annast athöfnina forfallaðist og það var enginn til staðar nema Sigurður sjálfur.
Þegar hann var að skrýðast fyrir athöfnina sá hann einhverja þá stærstu könguló sem hann séð á drifhvítu rikkilíninu. Hvorki fyrr né síðar hefur Sigurður séð könguló í Siglufjarðarkirkju. Það sem var merkilegt við þetta er að móðir hans var afskaplega hrædd við köngulær og átti það til að hoppa hæð sína ef þær urðu á veg hennar.
Önnur saga sem situr í honum er þegar hann annaðist útför og það slokknaði á öðru af stóru kertunum á altarinu. Hann sá þetta ekki en var sagt frá því eftir athöfnina.
Þetta kom viðstöddum ekki á óvart því að sá einstaklingur sem jarðsunginn þennan dag þoldi ekki kertaljós. Hann var astmaveikur og þegar kona hans gekk um íbúð þeirra og kveikti á kertum elti hann gjarnan og slökkti jafn harðan því kertareykur fór mjög illa í hann.
Sigurður hefur mikinn áhuga á að heyra frá fólki sem hefur upplifað hluti af þessu tagi en sjálfur kann hann fleiri sögur. Því er hér með komið á framfæri við lesendur að hafi þeir heyrt af eða upplifað sambærilega hluti og nefndir eru hér að ofan væri ráð að setja sig í samband við Sigurð Ægisson.
Sigurður er gestur Dagmála Morgunblaðsins í dag og ræðir þar nýja bók sína og ýmislegt það sem varðar kristnina. Hann hikar ekki við að titla sig nörd og vissulega er hann mikill grúskari. Segist verða afar áhugasamur um afmarkaða hluti og oftar en ekki endar sá áhugi með blaðagrein eða jafnvel bók, eins og gerðist með leit hans að tilurð algengasta orðatiltækis í heimi. OK.
Þáttinn í heild sinni má nálgast hér að neðan.