Fimmtungur allra þeirra fyrirtækja sem stéttarfélagið Efling sendi bréf vegna kjarasamnings SVEIT, samtaka fyrirtækja á veitingamarkaði, við stéttarfélagið Virðingu, hefur sagt sig úr samtökunum. Þá hafa enn fleiri fyrirtæki lýst því að þau muni fylgja kjarasamningum Eflingar og Samtaka atvinnulífsins.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Eflingu.
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, sendi bréf til aðildarfyrirtækja SVEIT fyrir hádegi í gær þar sem tíundaðar voru sumar þær aðgerðir sem Efling hyggst ráðast í gegn SVEIT og einstökum aðildarfyrirtækjum, vegna þess sem Efling telur að sé ólögmætur kjarasamningur við Virðingu. Þegar hafa borist viðbrögð frá tugum fyrirtækja.
Það var SVEIT sem stofnaði stéttarfélagið Virðingu fyrir starfsfólk sitt, en bent hefur verið á að slík ráðstöfun gangi gegn grundvallarreglum á vinnumarkaði. Launafólkið sjálft eigi að stofna sín stéttarfélög.
Áður höfðu Efling, Starfsgreinasambandið, ASÍ, BSRB, BHM og fleiri gagnrýnt harðlega stofnun Virðingar. Í yfirlýsingu sem BSRB og BHM sendu frá sér í gær sagði jafnframt að það væri forkastanlegt að atvinnurekendur væru að grafa undan réttindum launafólks í eiginhagsmunaskyni, með þessum hætti.
Af þeim 108 fyrirtækjum sem fengu bréf frá Sólveigu Önnu í gær hafa 22 fyrirtæki lýst því að þau hafi gengið úr SVEIT eða hafi óskað eftir úrsögn. Þá hafa alls 33 fyrirtæki lýst því að þau muni fylgja kjarasamningi Eflingar, eða tæpur þriðjungur. Félaginu hafa einnig borist staðfestingar á hinu sama frá fyrirtækjum sem ekki fengu umrætt bréf.
„Ég er mjög ánægð með þau viðbrögð sem mér hafa borist frá forsvarsmönnum veitingahúsa. Langflestir hafa lýst yfir fullum vilja til að fylgja löglegum kjarasamningum og virða réttindi síns starfsfólks. Það er jafnframt ánægjulegt að sjá fyrirtækin segja sig úr SVEIT, en í því felst skýr afstaða gegn þeim ömurlega blekkingarleik sem SVEIT hafa sett á svið í gegnum gervistéttarfélagið Virðingu,“ er haft eftir Sólveigu Önnu í tilkynningunni.