Landsvirkjun hefur tilkynnt stórnotendum á norður- og austurhluta landsins að ekki muni koma til þeirra skerðinga á afhendingu raforku um áramótin sem reiknað hafði verið með.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landsvirkjun en þar segir að áfram verði fylgst með stöðu mála, en útlitið á svæðinu sé þokkalegt, t.d. er staða Hálslóns betri í ár en í fyrra.
Skerðingar á suðvesturhluta landsins hófust 24. október sl. og munu standa áfram. Áætlað var að skerðingar á norður- og austurhluta landsins hæfust 22. nóvember, þeim var svo frestað til áramóta hið minnsta en nú er fallið frá þeim um óákveðinn tíma.
„Síðastliðin ár hefur miðlunarstaða verið ívið betri á Norður- og Austurlandi. Þetta ójafnvægi í miðlunarstöðu á milli landshluta verður til vegna mismunandi veðurfars en einnig vegna takmarkana í flutningskerfi Landsnets. Landsvirkjun getur ekki flutt eins mikla orku að norðaustan og fyrirtækið vildi til að styðja við raforkuafhendingu sunnanlands og ná jafnvægi í miðlunarstöðu á milli landshluta,“ segir enn fremur í tilkynningunni.
Fram kemur að í stærsta miðlunarlóni Landsvirkjunar Suðvestanlands, Þórisvatn, standi enn mjög lágt en hafi þó náð svipaðri stöðu og það var á sama tíma tíma í fyrra með rigningum undanfarinna vikna.
Vegna stöðunnar hefur verið ákveðið að virkja ákvæði í samningi við járnblendiverksmiðju Elkem á Grundartanga, sem heimilar Landsvirkjun endurkaup raforku af fyrirtækinu við aðstæður sem þessar. Þessi endurkaup eru síðasta vatnssparandi úrræðið sem Landsvirkjun hefur yfir að ráða og jafnframt hið kostnaðarsamasta.