Hlutu styrk upp á 3,5 milljarða: Einn sá stærsti sem Ísland hefur fengið

mbl.is/Einar Falur

Umhverfisstofnun, ásamt 22 samstarfsaðilum, hefur hlotið um 3,5 milljarða króna styrk frá Evrópusambandinu til að vinna að fjölbreyttum verkefnum til að flýta fyrir og bæta innleiðingu vatnaáætlunar á Íslandi.

Verkefnið ber yfirskriftina LIFE ICEWATER og er styrkurinn einn sá stærsti sem Ísland hefur fengið, að því er segir í tilkynningu frá stofnuninni. 

Ætlað að auka þekkingu á notkun, eiginleikum og ástandi vatns á Íslandi

Þar segir að markmið verkefnisins sé að auka þekkingu á notkun, eiginleikum og ástandi vatns á Íslandi. Einnig að tryggja fumlausa og samhæfða stjórnsýslu þegar komi að vatnamálum. Enn fremur að bæta vatnsgæði, til dæmis með úrbótum í fráveitu og hreinsun á fráveituvatni. Loks að fræða almenning og hagaðila um mikilvægi vatns.

„Umfang verkefnanna sem samstarfshópurinn hefur sett saman er samtals um 5,8 milljarðar króna. LIFE áætlun Evrópusambandsins styrkir verkefnið um 60% eða samtals um 3,5 milljarða sem dreifast á samstarfshópinn og verða verkefnin unnin á árunum 2025-2030,“ segir í tilkynningunni. 

Nánari upplýsingar er að finna hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert