Íbúar á Djúpavogi og nágrannabæjarfélögum á Austfjörðum hafa síðustu daga leitað dyrum og dyngjum að tveimur hundum sem sluppu út á mánudag. Eigandi hundanna óttast að þeir hafi komið sér í sjálfheldu, og þá sé aðeins tímaspursmál hvenær þeir verða veðrinu að bráð.
Hundarnir heita Luna og Stitch og eru eins árs og þriggja ára. Þau sluppu úr húsi um kl. 14.30 á mánudag og hafa nú ekki skilað sér heim í tvo sólarhringa.
„Ég er akkúrat að keyra núna upp að staðsetningu sem við teljum okkur hafa fundið spor,“ segir Ólöf Rún Stefánsdóttir, eigandi hundanna tveggja, þegar blaðamaður mbl.is slær á þráðinn til hennar.
Á morgun er spáð frosti á víða Austfjörðum og hún vonast til þess að hundarnir finnist í tæka tíð.
„Þetta eru auðvitað veiðihundar og þeir fara beint út í að leita að rjúpum,“ segir Ólöf Rún en hana grunar að þeir hafi komist langt á leið frá bænum. Hún óttast að þeir gætu hafa komið sér í sjálfheldu.
„Við leituðum og leituðum úr okkur alla lífstóruna allan daginn og fram að miðnætti,“ bætir hún við. En ekki fundust hundarnir. Þau kölluðu þá eftir aðstoð til að dekka helsta svæðið í nærumhverfi Djúpavogs.
„Það voru hátt í tuttugu sem komu að aðstoða með leitina í gær,“ segir hún. „Svo var ég búinn að heyra af fólki inni í bænum sem hafa tekið auka rúnt og göngutúra.“
Ólöf segist enn fremur hafa fengið fjöldann allan af skilaboðum vegna leitarinnar og margir hafi deilt Facebook-færslu Ólafar þar sem hún biðlar til fólks að hafa augun opin.
Þá hafa björgunarsveitir einnig lagt hönd á plóg, ekki síst dýrabjörgunarsveitin Dýrfinna.
„Það er mjög mikill vilji hjá fólki að aðstoða á þann hátt sem það getur,“ bætir hún við.
Ólöf hefur nú fundið loppuspor í Fossárdal sem gæti reynst vísbending um ferðir veiðihundanna. „Það er merki um það að þau séu komin upp í Fossárdal og eru einhvers staðar á leiðinni upp á Hérað, eða á Öxi í Fossárdal.“
Nú hyggjast þau kanna svæðið með dróna, en skyggnið mætti vera betra að sögn Ólafar.
Sem fyrr segir er spáð frosti á morgun, og líklega eru hundarnir orðnir svangir eftir tveggja sólarhringa dvöl úti í náttúrunni.
„Ef þau ná að hlaupa ná þau að halda á sér hita. En ef þau eru föst einhvers staðar þá er bara tímaspursmál að veðrið taki þau.“
Hún biðlar til fólks á Austfjörðum að hafa samband við sig í síma 868-1643, skyldi það rekast á hundana.