Tilkynnt var um líkamsárás í hverfi 220 í Hafnarfirði. Einn maður var handtekinn vegna ástands og vistaður í fangageymslu. Meiðsli voru minniháttar.
Í miðbæ Kópavogs var tilkynnt um aðra líkamsárás. Meiðsli voru minniháttar. Viðkomandi var vistaður á viðeigandi stofnun.
Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu vegna verkefna frá klukkan 17 í gær til 5 í morgun. Alls eru 49 mál bókuð í kerfum lögreglu á tímabilinu og sex gista í fangaklefa.
Tvær tilkynningar bárust um eignaspjöll, eða í hverfum 104 og 109 í Reykjavík. Í báðum tilfellum var um rúðubrot að ræða. Gerendurnir eru ókunnir og eru málin í rannsókn.
Tilkynnt var um tvo þjófnaði úr verslun í hverfi 108 í Reykjavík og var málið afgreitt á vettvangi. Tilkynning barst um annan þjófnað úr verslun í sama hverfi. Það mál var einnig afgreitt á vettvangi.
Ökumaður var stöðvaður í akstri í hverfi 103 grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna. Við leit á honum og í bifreiðinni fundust ætluð fíkniefni. Ökumaðurinn var vistaður í fangageymslu og er málið í rannsókn.
Ökumaður var stöðvaður í akstri í hverfi 201 í Kópavogi fyrir að tala í farsíma án þess að nota handfrjálsan búnað. Hann var sektaður.
Annar ökumaður var stöðvaður í hverfi 221 í Hafnarfirði fyrir of hraðan akstur, eða á 93 km hraða þar sem hámarkshraði er 50. Hann var sektaður.