Máli Samskipa gegn Eimskip vísað frá

Samkvæmt heimildum mbl.is telst líklegt að úrskurður héraðsdóms verði kærður …
Samkvæmt heimildum mbl.is telst líklegt að úrskurður héraðsdóms verði kærður til Landsréttar. Ljósmynd/Samskip

Máli Samskipa hf. gegn Eimskipafélagi Íslands hf. og Vilhelmi Má Þorsteinssyni, forstjóra Eimskips, hefur verið vísað frá í Héraðsdómi Reykjavíkur.

Kröfur Samskips voru að viðurkennt yrði fyrir dómi að Eimskip og Vilhelm bæru óskipta bótaábyrgð á tjóni Samskipa eftir að Eimskip og samkeppniseftirlitið gerðu með sér sátt þar sem Eimskip gekkst við því að hafa átt í samráði við Samskip á tímabilinu 2008 til 2013.

Þetta kemur fram í frávísunarúrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur sem mbl.is hefur undir höndum. 

Kröfðust bótaskyldu án fjárhæðar

Greint er frá frávísun Héraðsdóms Reykjavíkur í tilkynningu frá Eimskip til Kauphallarinnar. Þar segir:

„Héraðsdómur Reykjavíkur ákvað í dag að vísa frá dóminum máli sem Samskip höfðuðu í apríl sl. gegn félaginu og forstjóra þess þar sem krafa var gerð um viðurkenningu bótaskyldu án fjárhæðar vegna meintra ólögmætra og saknæmra athafna í tengslum við sátt sem Eimskip gerði við Samkeppniseftirlitið 2021.“

Vilhelm Már Þorsteinsson
Vilhelm Már Þorsteinsson Ljósmynd/Eimskip

Vanreifaðar kröfur

Héraðsdómur taldi Samskip ekki hafa gert nægilega vel grein fyrir meintu tjóni sínu og að kröfur á hendur Vilhelmi væru vanreifaðar.

Samskip hefðu ekki með fullnægjandi hætti gert grein fyrir hvernig sú háttsemi hans að undirrita sáttina hafi farið gegn skyldum hans eða umboði.

Í úrskurðarorðum dómsins segir að málinu sé vísað frá dómi og er Samskipi gert að greiða Eimskipi og Vilhelmi sameiginlega 2.800.000 krónur í málskostnað.

Samkvæmt heimildum mbl.is telst líklegt að úrskurður héraðsdóms verði kærður til Landsréttar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert