Mótmæla brottvísun sýrlenskra systra

Samtökin mótmæla og vilja að mál systranna verði endurskoðuð.
Samtökin mótmæla og vilja að mál systranna verði endurskoðuð. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Samtökin Læti! / Stelpur rokka! mótmæltu í dag brottvísun sýrlenskra systra sem dvalið hafa hér á landi en senda á þær til Venesúela.

Mótmælin hófust kl. 15 fyrir framan húsnæði kærunefndar útlendingamála.

Í tilkynningu frá samtökunum segir að systurnar, Ríma og Noura Nasrer, hafi komið hingað til lands í leit að öryggi frá stríðinu í Sýrlandi og til að sameinast fjölskyldu sinni sem eru flóttamenn á Íslandi en að nú eigi að vísa þeim á brott og aðskilja þær frá fjölskyldu sinni.

Vísa á systrunum á brott og aðskilja þær frá fjölskyldu …
Vísa á systrunum á brott og aðskilja þær frá fjölskyldu sinni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tilnefnd sem einn af 100 framúrskarandi ungum Íslendingum

„Ríma starfaði sem sjálfboðaliði hjá Rauða krossinum og Læti! hér á Íslandi, þar sem hún hefur m.a. unnið með arabískumælandi börnum. Framlag hennar leiddi til þess að hún var tilnefnd sem einn af 10 framúrskarandi ungum Íslendingum af JCI á Íslandi.

Mótmælin hófust klukkan 15.
Mótmælin hófust klukkan 15. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við í Læti! / Stelpur rokka! höfum ekkert nema góðar sögur að segja af Rímu. Ekki aðeins hefur hún hæfileika á sviði tungumála og mikla hjartagæsku og menningarnæmi sem nýtist í starfi með börnum, heldur er hún einnig frábær tónlistarkona og gat aðstoðað börnin við að læra söng og á gítar,“ segir í tilkynningu samtakanna.

Engin sterk tengsl við Venesúela

Þá er verið að senda systurnar til Venesúela vegna þess að þær hafa tvöfalt ríkisfang en kemur fram að þær hafi engin sterk tengsl við landið og tali heldur ekki tungumálið.

Vilja samtökin mótmæla til að sýna að systurnar væru ekki einar og einnig til að spyrja Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála hvort mál þeirra geti verið endurskoðuð.

„Ríma hefur sannað að hún er hluti af íslensku samfélagi og við viljum að hún og systir hennar verði hér áfram!“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert