Hugtakið myrkurgæði hefur ekki verið ofarlega í huga landsmanna en myrkur getur haft mikið gildi fyrir lífsgæði og stuðlað að heilbrigðari vistkerfum þar sem dýr og plöntur geta fylgt náttúrulegum dægursveiflum án truflana frá ljósum.
„Við eigum að sækjast eftir myrkurgæðum,“ segir Ingibjörg Smáradóttir, skjalastjóri hjá Náttúrufræðistofnun, sem í dag flytur erindi á Hrafnaþingi stofnunarinnar um þetta málefni.
Myrkurgæði vísa til þess hversu lítið ljós er til staðar á ákveðnu svæði, sem gerir það auðveldara að sjá stjörnurnar og næturhimininn. Hugtakið er einnig notað í samhengi við ljósmengun, þegar óþarfa eða óviðeigandi ljós truflar náttúrulegt myrkur.
Skrifuð var skýrsla á vegum umhverfisráðuneytisins árið 2013 um myrkurgæði og þar sagði að mikil lýsing hefði til skamms tíma þótt bera vott um betri lífskjör og lífsgæði, á heimilum, vinnustöðum og í byggðarumhverfi til sjávar og sveita.
Sú hugmynd hefði verið Íslendingum framandi að myrkur gæti haft gildi í sjálfu sér fyrir lífsgæði manna, og væri jafnvel nauðsynlegt fyrir þá og aðrar skepnur, hvað þá að í myrkrinu kynnu að felast efnisleg verðmæti.
Í skýrslunni segir, að talið sé að rúmlega tveir þriðju hlutar mannkyns búi við aðstæður þar sem lýsing að nóttu er meiri en 10% umfram náttúrulegt myrkur. Jafnframt hafi sjónir manna beinst að þeim gæðum sem tapast við skerðingu eðlilegs myrkurs en við rýrnun myrkurgæða fari almenningur á mis við að njóta fegurðar næturhiminsins, sem var sjálfsagður hluti tilverunnar þar til fyrir rúmri hálfri öld.
Nánar í Morgunblaðinu í dag.