Sagðist ekki vera að „berja hana eða neitt svoleiðis“

Maðurinn var ekki dæmdur fyrir manndráp, einungis líkamsárás.
Maðurinn var ekki dæmdur fyrir manndráp, einungis líkamsárás. mbl.is/Árni Sæberg

Héraðsdómur Norðurlands eystra hefur dæmt karlmann í 12 ára fangelsi fyrir stórfellt brot í nánu sambandi, en hann beitti sambýliskonu sína margþættu ofbeldi og leiddu þeir áverkar sem konan hlaut til dauða hennar.

Atlaga hans beindist meðal annars að kvið hennar, höfði, hálsi, bringu, brjóstkassa og útlimum. 

Maðurinn er þó ekki sakfelldur fyrir manndráp, líkt og hann var einnig ákærður fyrir, þar sem ekki þótti sannað að það hefði verið ásetningur hans á verknaðarstundu að bana konunni.

Í dómnum kemur fram að maðurinn hafi sjálfur, aðfaranótt 22. apríl síðastliðins, hringt í lögregluna og tilkynnt að konan hans lægi á gólfinu og hann héldi að hún væri látin. Hún væri köld. Þá sagði maðurinn „fyrirgefðu, fyrirgefðu“.

Benti inn í stofu: „Hún er bara dáin“

Samkvæmt frumskýrslu lögreglu stóð maðurinn reykjandi í útidyrunum þegar lögregla kom á staðinn. Hann fylgdi lögreglumönnum inn og sagði „hún er bara dáin“ og benti inn í stofu.

Sagði maðurinn að þau hefðu verið sofandi og þegar hann vaknaði hafi hann fundið konuna á gólfinu en „datt ekki í hug að það væri neitt svakalegt sko,“ eins og hann orðaði það.

Tekið er fram í skýrslunni að lögreglumönnum hafi þótt háttalag mannsins sérkennilegt miðað við aðstæður og var hann handtekinn grunaður um að hafa átt þátt í andláti konunnar.

Í bráðabirgðaskýrslu sem réttarlæknar skiluðu um réttarkrufningu kemur fram að meginþorri áverkanna sé ferskur og samræmist því að þeir hafi komið til á sólarhringunum fyrir andlát konunnar. Rannsóknarniðurstöður benda til þess að dánarorsökin hafi verið áverki á garnahengisbláæðina og blæðing sem varð í kviðarholi vegna hans.

Beitti konuna ofbeldi í þrjá áratugi

Lögregla aflaði gagna um sögu sambands mannsins og konunnar í gegnum tíðina, meðal annars frá heilbrigðisstofnunum, barnavernd og félagsstofnun, auk gagna úr málaskrá lögreglu. Niðurstaðan var sú að maðurinn hefði líklega beitt konuna heimilisofbeldi í á þriðja tug ára og að hún, vegna meðvirkni með ástandinu, að mestu neitað samvinnu við lögreglu.

Móðir konunnar hafði samband við ráðgjafa Kvennaathvarfsins snemma á þessu ári og lýsti því að dóttir hennar hefði búið við heimilisofbeldi í mörg ár og að hún hefði miklar áhyggjur henni. Hún væri hrædd um öryggi og heilsu dóttur sinnar og var henni leiðbeint að hafa samband við lögreglu.

Ekkert sem mælti gegn fangelsisvist

Ákæra var gefin út á hendur manninum í júlí síðastliðnum og málið þingfest í ágúst.

Geðlæknir var fenginn til að meta hvort maðurinn væri sakhæfur þar sem hann vísaði ítrekað til minnisleysis við skýrslutökur og sagðist vera með alzheimer. Var það niðurstaða matsmanns að maðurinn glímdi við heilabilun og að líklegt væri að mikil áfengisneysla í gegnum árin hefði haft áhrif á þessa þróun. Taldi matsmaður að refsing myndi ekki bera árangur og mat manninn ósakhæfan. 

Var það hins vegar niðurstaða dómsins að ekkert hefði komið fram sem mælti gegn því að Fangelsismálastofnun gæti tryggt honum viðeigandi meðferð og í því samhengi vísað til þess að ástand hans hefði ekki versnað við gæsluvarðhald.

Sagði konuna óheppna og klaufska

Fram  kemur að framburður mannsins fyrir dómi hafi verið mjög ruglingslegur og stangast á við gögn málsins. Hann kannaðist ekki við að konan hefði verið með áverka, en sagði hana hafa dottið á stól og að hann teldi hann hafa látist vegna þessa. Hún hefði verið mjög óheppin og klaufsk.

Þegar manninum var tjáð að konan hefði látist að völdum ákverka sem einhver annar hefði veitt henni, kvaðst hann ekkert slíkt hafa verið í gangi um kvöldið. Hann hafi ekki verið að berja hana „eða neitt svoleiðis.“

Þá kannaðist maðurinn ekki við að hafa beitt konuna ofbeldi í gegnum tíðina og að hann hafi ekki verið „að berja hana eða eitthvað svoleiðis sko.“ Sambandið hafi verið gott, þau verið bestu vinir og alltaf saman.

Hvíslaði í símann inni á baðherbergi

Synir sambýlisfólksins lýstu því fyrir dómi að faðir þeirra hefði oft beitt móður þeirra ofbeldi í gegnum tíðina, hún hefði alltaf verið með einhverja áverka. Dóttir mannsins hafði svipaða sögu að segja.

Þá sagði móðir konunnar að hún hefði hringt daglega í dóttur sínar fyrr á árinu, boðið henni hjálp og hvatt hana til að koma til sín, en hún hafi alltaf beðið um viku frest. Dóttir hennar hafi yfirleitt verið inn á baðherbergi þegar þær töluðu saman í síma og hún hvíslað. Dóttirin hafi verið undir áhrifum en hún heyrt að ástandið væri mjög slæmt. Meðal annars hefði komið fram að augað væri komið út úr höfðinu á henni.

Brot mannsins sögð svívirðileg

Maðurinn er ekki sakfelldur fyrir manndráp þar sem ekki er talið fullsannað að það hafi verið ásetningur hans á verknaðarstundu að bana konunni. Hann er hins vegar sakfelldur fyrir líkamsárás og í dómnum segir að hann hafi sýnt af sér stórkostlegt gáleysi um afleiðingar háttsemi sinnar.

Við ákvörðun refsingar var horft til þess að maðurinn hefði ekki áður verið dæmdur til refsingar, en einnig horft til þess að hann hefði um árabil beitt konuna grófu ofbeldi, vanvirt hana og niðurlægt. Ofbeldið hafi verið viðvarandi og endað með þeim hörmulegu afleiðingum að konan lést. Þá er tekið fram að maðurinn hafi ekki sýnt nein merki iðrunar eða eftirsjá. Brot mannsins gegn konunni hafi verið svívirðileg.

Var maðurinn dæmdur í 12 ára fangelsi og gert að greiða sonum þeirra 4 milljónir hvorum í miskabætur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert