Enn er allt keyrt á varaafli í Vík og Mýrdal eftir að Víkurstrengur bilaði, aðfaranótt sunnudags 9. desember, þar sem hann liggur plægður ofan í Skógá.
Fram kemur í tilkynningu frá RARIK að vegna þess hversu hár álagstoppur gærdagsins varð var varaflsvél send af stað frá Þórshöfn í gær til að betur væri hægt að anna álagi dagsins í dag.
Þar segir jafnframt að viðgerð á strengnum hafi hafist í gær með því að boruð voru mjó göng undir árfarveg Skógár og rör dregin í gegnum þau. Jarðstrengirnir verða svo dregnir þar í gegn.
Verktakafyrirtækið Þjótandi hóf borun rétt eftir hádegi í gær og luku verkefninu um klukkan 5 í nótt.
„Starfsfólk framkvæmdaflokka RARIK mun í dag hefja vinnuna við að draga strengi í gegnum rörin og tengja, þannig að hægt verði að koma rafmagni aftur á svæðið eftir strengjum. Við nýtum einnig tækifærið og leggjum í rörið 11 kV streng sem liggur á sama stað yfir ána. Áætlað er að viðgerðin taki u.þ.b. tvo daga með prófunum,“ segir í tilkynningu.
Þá kemur fram að bilun í spennustöð við Ytri-Sólheima, sem fór hálf á kaf í vatnsveðrinu á sunnudag og mánudag, er fundin og er viðgerð þar hafin. Vonast er til að hún klárist í kvöld eða á morgun.
Bilunin olli töfum við uppbyggingu varaafls í Mýrdal seinni hluta mánudags en hún er staðsett í streng sem sér sendi Neyðarlínunnar fyrir rafmagni. Strengurinn skemmdist vegna mikils vatnsálags og hefur sendirinn verið keyrður áfram með varaflsvél Neyðarlínunnar á meðan.