Sjö verkefni hlutu samtals 2,5 milljónir

Styrkirnir voru afhentir við hátíðlega athöfn í sal Kvenréttindafélags Íslands …
Styrkirnir voru afhentir við hátíðlega athöfn í sal Kvenréttindafélags Íslands á Hallveigarstöðum. Ljósmynd/Aðsend

Á afmælisdegi Mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna afhenti Menningar- og minningarsjóður kvenna sjö styrki til ólíkra verkefna í minningu Bríetar Bjarnhéðinsdóttur baráttukonu fyrir réttindum kvenna. Alls bárust 55 umsóknir í sjóðinn, en sjö umsóknir hlutu styrk.

Í ár lagði stjórn sjóðsins áherslu á sögu kvenna og kvenréttinda í tilefni af því að 50 ár verða liðin frá kvennaári Sameinuðu þjóðanna á næsta ári, að því er segir í tilkynningu. 

Eftirfarandi verkefni hlutu styrk:

  • Helga Margrét Clarke fyrir viðburðinn: Raddir kvenna – Tónlistararfleifð í gegnum aldirnar, 550.000 kr.
  • Lovísa Fjeldsted vegna bókarinnar Jórunn Viðar: Brautryðjandi í íslenskri tónlist. Ævisaga og verkaskrá, 200.000 kr.
  • Unnur Birna Karlsdóttir fyrir verkefnið: Konur í verkalýðsbaráttu á Austurlandi á fyrri hluta 20. aldar – þátttaka og áhrif, 500.000 kr.
  • Flóra menningarhús – Sigurhæðir Akureyri fyrir verkefnið: Menningararfur Ólafar frá Hlöðum: Vinna við Bernskuheimilið mitt og viðburðahald, 500.000 kr.
  • Kolbrún Finnsdóttir fyrir verkefnið: LILJUSPOR dagbókarskrif, minningar, skoðanir, erindi og hugmyndir Lilju Sigurðardóttur (1884-1970) frá Víðivöllum í Blönduhlíð í Skagafirði, 200.000 kr.
  • Iðunn Vignisdóttir fyrir ritun á sögu Kvennaskóla Húnvetninga, 500.000 kr.
  • Marion Charlotte B. Poilvez fyrir skrásetningu sögu Samtaka kvenna af erlendum uppruna á Íslandi, 500.000 kr.

Styrkir menntun kvenna og kvennamenningu

„Menningar- og minningarsjóður kvenna var stofnaður af afkomendum Bríetar Bjarnhéðinsdóttur árið 1941 í minningu hennar. Sjóðurinn hefur í gegnum árin styrkt menntun kvenna og kvennamenningu með reglulegum úthlutunum. Stjórn sjóðsins minnir á að hægt er að styrkja sjóðinn með frjálsum framlögum og minnir á að einstaklingar geta fengið skattafrádrátt vegna gjafa og framlaga til félaga sem skráð eru á almannaheillaskrá Skattsins,“ segir í tilkynningunni. 

Stjórn Menningar- og minningarsjóðs kvenna skipa Kristín Ástgeirsdóttir formaður, Helga Dögg Björgvinsdóttir, Lára Aðalsteinsdóttir, Sabine Leskopf og Tatjana Latinovic formaður Kvenréttindafélags Íslands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert