Stekkjastaur væntanlegur í nótt

Sést hefur til Stekkjastaurs á leið til byggða.
Sést hefur til Stekkjastaurs á leið til byggða.

Stekkjastaur Leppalúðason, fyrstur jólasveinanna, er væntanlegur til byggða í nótt.

Börn á öllum aldri ættu því að muna eftir að setja skóinn út í glugga fyrir nóttina og vonast eftir skemmtilegum glaðningi í fyrramálið.

Þeir sem ekki hafa hagað sér nægilega vel eiga þó alltaf möguleika á að bæta sig og vona að bræður Stekkjastaurs komi með eitthvað skemmtilegra með sér á næstu dögum.

Undirbúningur jólasveinanna hefur að vanda verið í fullum gangi og náðist ekki í Stekkjastaur við gerð fréttarinnar, en hann mun vera utan þjónustusvæðis.

Grýla og Leppalúði.
Grýla og Leppalúði. Ljósmynd/Þjóðminjasafnið

Hrekkjóttir bræður

Stekkjastaur var sagður sjúga mjólk úr kind­um en hafði staur­fæt­ur svo það gekk heldur brös­ug­lega. Stekk­ur er gam­alt heiti á sér­stakri fjár­rétt og dreg­ur sveinn­inn nafn sitt þaðan, en Jóhannes úr Kötlum orti um hann svo:

Stekkj­astaur kom fyrst­ur,
stinn­ur eins og tré.
Hann laumaðist í fjár­hús­in
og lék á bónd­ans fé.

Hann vildi sjúga ærn­ar,
-þá varð þeim ekki um sel,
því greyið hafði staur­fæt­ur,
-það gekk nú ekki vel.

Þeir bræður eru þó farnir að haga sér betur síðustu ár og hrekkir eins og að sjúga mjólk úr kindum í fjár­hús­um bænda eru blessunarlega á undanhaldi.

Giljagaur, bróðir Stekkjastaurs, er svo væntanlegur aðfaranótt föstudags.

Lummusníkir og Sledda

Svo virðist sem Grýla og Leppalúði hafi í gamla daga átt fleiri börn en jólasveinana þrettán.

Þau báru öll álíka skemmtileg nöfn og bræður sínir en í heild er um að ræða 78 nöfn, eins og segir á umfjöllun Vísindavefsins.

Þar á meðal eru:

Smjörhákur, Baggalútur, Froðusleikir, Stigaflækir, Lækjaræsir, Bandaleysir, Guttormur, Flotsokka, Bitahængir, Stóridrumbur, Bjálfansbarnið, Litlidrumbur, Svellabrjótur, Hnútur, Pönnuskuggi, Drumbur fyrir alla, Rauður, Tífill, Dúðadurtur, Kertasleikir, Redda, Tígull, Efridrumbur, Refur, Tútur, Faldafeykir, Reykjasvelgur, Þambarskelfir, Fannafeykir, Kleinusníkir, Rjómasleikir, Þorlákur, Flautaþyrill, Klettaskora, Skefill, Þvengjasleikir, Flotgleypir, Lampaskuggi, Skófnasleikir, Flotnös, Örvadrumbur, Flotsleikir, Skyrjarmur, Lummusníkir og Sledda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert