Suðurnesjabær hefur samþykkt að bíða með ákvörðun um sameiningarviðræður Reykjanesbæjar, Suðurnesjabæjar og Voga.
Á fundi bæjarráðs Suðurnesjabæjar á miðvikudaginn í síðustu viku var tekið fyrir erindi frá verkefnisstjórn um óformlegar viðræður um sameiningu sveitarfélaganna.
Verkefnisstjórnin lagði til við sveitarstjórnirnar að bíða með ákvörðun um sameiningarviðræður þar til að ríkið kæmi með lágmarks yfirlýsingu „um að stjórnvöld muni koma til móts við sveitarfélögin varðandi þær forsendur sem þurfa að liggja fyrir áður en til afgreiðslu kemur í bæjarstjórnunum,“ segir í fundargerð bæjarráðs.
Tillaga verkefnisstjórnarinnar var samþykkt samhljóða af bæjarráði.
Í október greindi mbl.is frá því að bæjarstjórn Suðurnesjabæjar hefði samþykkt að vísa tillögu um að hefja formlegar sameiningarviðræður við Reykjanesbæ og Voga til síðari umræðu.