„Ég hef lært að ég má sleppa tökunum“

Þóra er ein stofnenda Hæglætishreyfingarinnar á Íslandi.
Þóra er ein stofnenda Hæglætishreyfingarinnar á Íslandi. Ljósmynd/Aðsend

„Hæglætið hefur hjálpað mér að finna hvað það er sem ég vil raunverulega, meðal annars. Hjálpað mér mjög í samskiptum og að láta af stjórn á öðrum, ég hef lært að ég má sleppa tökunum, ég má leyfa fólki að vera þar sem það er sjálft og þarf ekki að reyna að breyta öðru fólki,“ segir Þóra Jónsdóttir, ein stofnenda Hæglætishreyfingarinnar á Íslandi.

Hún kynntist hugmyndafræði hæglætis fyrst fyrir um tuttugu árum þegar hún las bókina Lifum lífinu hægar eftir Carl Honoré. Hún var þá leitandi og opin fyrir hugmyndum um það hvernig hún gæti náð betri stjórn á eigin lífi og hvað hún þyrfti að gera til að finna að hún gerði gagn, ásamt því að upplifa vellíðan og jafnvægi. Nú er svo komið að hann er á leið hingað til lands og heldur fyrirlestur um þetta málefni.

Svar við hraða og streitu samfélagsins

Hæglætishreyfingin hér á landi varð til þegar nokkrar konur sem aðhylltust svipaða hugmyndafræði tóku sig saman um að stofna vettvang til að finna henni farveg.

„Við vorum hópur kvenna sem vorum allar með Instagram-reikninga þar sem við vorum að hvetja til meðvitaðra og hægara lífs. Við hópuðum okkur saman og ákváðum að setja þessa hreyfingu á fót,“ segir Þóra, en hreyfingin var stofnuð árið 2021.

Markmið hæglætishreyfingarinnar er að tala fyrir því það megi lifa hægar og breiða út meðvitund um möguleikann á hægara lífi. Að vera svar við hraða og streitu samfélagsins.

„Eins og margir upplifa þá er álagið oft ansi mikið og dagsskipanin oft rosalega flókin. Það eru ekki allir sem upplifa að þeir hafi fulla stjórn á dagsskipan sinni og finnst þeir vera í hamstrahjóli sem þeir voru settir í. Við erum að tala fyrir því fólk geri það sem það getur til að hafa áhrif á hvernig það vinnur með þetta hamstrahjól. Taki stjórnina á eigin lífi, sem má gera með ýmsu móti,“ segir Þóra.

Kom týnd út í fullorðinslífið

Hún segist sjálf hafa verið leitandi frá því hún var tvítug og alltaf að reyna að finna sitt jafnvægi í lífinu.

„Ég kem út í fullorðinslífið svolítið týnd, eins og kannski margt fólk upplifir og veit ekki alveg hvar ég stend, hver ég er og hvernig ég vil lifa lífinu. Finnst ég svolítið háð samfélagslegum gildum sem kannski passa mér ekkert endilega.”

Hún hafi líkt og margir haft efasemdir um sjálfa sig og verið meðvirk.

„Maður veit ekki alveg hvernig maður á að svara beiðnum, segir kannski já við öllu, en er ekkert endilega tilbúinn til að segja já. Maður vill vera svo góður við alla, þóknast öllum og vera samþykktur, en er í raun veru ekkert að gera það með eigin samþykki. Þetta er hluti af því að leita af því sem passar fyrir mig.“

Regnhlífarhugtak yfir sjálfsvinnu 

Þrátt fyrir að hafa lært að tileinka sér hugmyndafræði hæglætis og lifa samkvæmt þeim lífsstíl að mestu leyti, segist Þóra aldrei verða alveg útskrifuð í þeim efnum.

„Maður er aldrei búin að klára þetta alveg, en þetta er vissulega hjálplegt fyrir mig. Ég hef náð að tengjast sjálfri mér betur, hlusta á innsæið og líkamann, hvað vaknar hjá mér þegar ég beðin um að taka þetta að mér eða ég er spurð um hvað mér finnist um þetta eða hitt.“

Hún segir hæglætishugmyndafræðina í raun vera regnhlífarhugtak yfir allskyns sjálfsvinnu. Þar undir sé allt sem lúti að því að hlúa vel að sjálfum sér og gefa sér tíma.

Á morgun, laugardag, stendur hæglætishreyfingin fyrir viðburði á milli klukkan 13 og 15 í stofu L-101 í Lögbergi, þar sem kanadíski rithöfundurinn Carl Honoré, talsmaður hæglætis, heldur fyrirlestur um hugmyndafræði hæglætishreyfingarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert