Ekkert lát er á vinsældum hlaðvarpa hér á landi. Framboð efnis virðist nær endalaust og efnistökin eru af öllum toga. Hlaðvörpin sköpuðu sér fastan sess í tilveru margra í kórónuveirufaraldrinum og fæstir hafa litið til baka síðan.
Nú blása þó aðrir vindar um héruð en fyrir fjórum árum. Þá voru löng og ítarleg viðtöl heitasta heitt í hlaðvarpsheimum – og þau njóta vissulega enn vinsælda – en vinsælasta formið í dag virðist vera spjall um málefni líðandi stundar. Pólitík og fólk sem áberandi er í umræðunni. Áhugavert er að sjá að vinsælustu hlaðvarpsstjórnendur smala hjörð sinni saman án mikillar fyrirhafnar og halda skemmtikvöld.
„Við munum halda áfram meðan þetta er gaman og ný þáttaröð byrjar á nýársdag. Ein ástæða fyrir því að fólk hlustar er sennilega að fólk heyrir að það er gaman hjá okkur. Við Ólöf erum náttúrlega búnar að vera í einhvers konar brandarakeppni í yfir 20 ár,“ segir Kristín Gunnarsdóttir sem stjórnar hlaðvarpinu Komið gott ásamt Ólöfu Skaftadóttur.
Komið gott fór í loftið í byrjun júní og er með vinsælustu hlaðvörpum landsins. Nýjustu þættir þeirra hafa fengið yfir 30 þúsund hlustanir hver. Athygli vakti fyrir skemmstu þegar Kristín og Ólöf seldu upp á kvöldstund í Iðnó á fjórum mínútum en þar komust færri að en vildu. Kristín segir að hún hafi ekki beint átt von á þessum vinsældum þegar þær byrjuðu.
„Þetta var ekki uppleggið en það er bara áhugavert að þetta sé eitthvað sem fólk vill fara og sjá læv. Þetta raus okkar sem fólk spilar vanalega þegar það setur í þvottavél eða er úti að labba með hundinn.“
Þær eru síður en svo þær einu sem bjóða hlustendum upp á slíkar kvöldstundir. Hið sama hafa stjórnendur hlaðvarpsins Þjóðmála gert reglulega með góðum árangri. Þá eru stjórnendur hlaðvarpsins Draugar fortíðar á leið í ferð um landið í janúar næstkomandi. Þar munu þeir rifja upp gömul sakamál og furðusögur sem tengjast hverjum viðkomustað fyrir fullum sal af fólki ef að líkum lætur enda hefur hlaðvarpið notið fádæma vinsælda undanfarin ár. Ekki má svo gleyma því þegar fimm ára afmæli hlaðvarpsins Þarf alltaf að vera grín? var fagnað með kvöldstund í Hörpu. Þó umsjónarmenn þess hefðu margoft boðið upp á svokallað lifandi hlaðvarp seldist upp á viðburðinn í Hörpu á stuttum tíma, 1.600 miðar hvorki meira né minna.
Nánar í fimmtudagsblaði Morgunblaðsins.